Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Flýting framkvæmda í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Þriðjudagur 5. október 2004 kl. 15:41

Flýting framkvæmda í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Í fréttatilkynningu frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar kemur fram að ákvörðun Icelandair, um að hefja áætlunarflug til San Francisco í maí 2005, kalli á að flýtt verði ýmsum verkþáttum við stækkun og breytingar í flugstöðinni. Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri flugstöðvarinnar, segir að nýja flugleiðin til Bandaríkjanna fjölgi augljóslega farþegum um Keflavíkurflugvöll enn frekar. Stjórn og stjórnendur fyrirtækisins muni því á  næstunni fjalla um öll framkvæmdaáform í nýju ljósi.

,,Við fögnum ákvörðun Icelandair enda styrkir nýr áfangastaður félagsins Keflavíkurflugvöll í sessi sem tengiflugvöll. Þetta eru jafnframt afar góð tíðindi fyrir íslenska ferðaþjónustu í heild sinni,” segir Höskuldur. ,,Farþegum á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað um 35% síðustu tvö árin, sem er trúlega mesta fjölgun flugfarþega í allri Vestur-Evrópu. Nú blasir við að endurskoða farþegaspárnar og við hér á bæ verðum augljóslega að láta hendur standa fram úr ermum varðandi framkvæmdir í flugstöðinni.”

Gert er ráð fyrir að stækka móttökusal í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vetur og einnig verslun fyrir komufarþega. Þá er á dagskrá að endurskipuleggja verslunar- og þjónustusvæði á annarri hæð flugstöðvarinnar og innrétta skrifstofurými á þeirri þriðju. Frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar árin 2005 og 2006, meðal annars vegna búnaðar og rýmis fyrir farangursflokkun og vopnaleit. Áætlað er að fyrirhugaðar framkvæmdir kosti alls um 2,5 milljarða króna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024