Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flýr heimilið öðru sinni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 16. nóvember 2023 kl. 06:00

Flýr heimilið öðru sinni

Grindvískur Bolvíkingur fer oft með æðruleysisbænina

„Ég þurfti einu sinni að flýja heimili mitt en lít svo á að ég sé bara að flýja tímabundið núna,“ segir Magnús Már Jakobsson, öryggis- og mannauðsstjóri útgerðarfyrirtækisins Þorbjarnar í Grindavík, en hann hefur haft í nógu að snúast undanfarnar vikur síðan síðasta skjálftavirkni byrjaði. Ekki nóg með að Magnús sé aðstoða starfsfólk Þorbjarnar við að finna nýtt húsaskjól, hann er að flýja eigið heimili í annað sinn á ævinni en hann er frá Bolungarvík og ákvað að segja skilið við heimabæinn á sínum tíma þegar tvö snjóflóð léku nágrannabæi mjög illa með með miklum mannskaða.

Magnús er orðinn jafn mikill ef ekki meiri Grindvíkingur en Bolvíkingur í dag. „Ég er alltaf að reyna verða Grindvíkingur en á ekki nógu marga ættliði en að öllu gríni slepptu, Grindavík á mjög stóran sess í mínu hjarta og mun alltaf gera. Á erfiðum tímum sem þessum sé ég ennþá betur hvað mér finnst mikið til Grindvíkinga koma, það er ótrúlegt að sjá hvað við stöndum þétt saman. Ég kom til Grindavíkur á sínum tíma til að flýja náttúruhamfarirnar fyrir vestan og allan tímann hefur mér verið mjög vel tekið í Grindavík og ég hef lagt mig fram við að verða eins mikill Grindvíkingur og ég get. Mér finnst stórkostlegt að sjá samtakamáttinn sem býr í samfélaginu, það sá ég í raun þegar ég starfaði fyrir sunddeildina, þá stóð ég oft fyrir maraþonsundi og kenndi þá börnunum samkennd og það gekk ótrúlega vel. Við erum kannski öfgafólk, við getum rifist eins og hundur og köttur en um leið og einhver verður fyrir áfalli, erum við öll mætt með hjálparhönd. Grindavík er eitthvað annað í mínum huga.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Magnús tók nýlega við sem öryggis- og mannauðsstjóri hjá Þorbirni og fékk eitt stykki heljarinnar verkefni í hendurnar. „Við höfum undirbúið verstu sviðsmyndina undanfarnar þrjár vikur, þ.e. að ef heita vatns- og rafmagnslaust yrði til Grindavíkur. Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri, sagði mér að ég ætti bara að einbeita mér að mannauðnum, það væri aðalatriðið og allt annað myndum við skoða seinna. Það gekk ótrúlega vel að koma öllu starfsfólkinu sem býr í verbúðinni en þau eru langflest af erlendu bergi brotin, út af verbúðinni. Þegar ég mætti um áttaleytið á föstudagskvöld voru allir komnir í bíla og í leið í öruggt skjól. Bæði eiga þau ættingja og vini og gátu leitað þangað en sumir þurftu að leita til fjöldahjálparstöðva í Keflavík og á Selfossi, ég veit ekki til þess að neinn hafi farið í Kópavog. Ég kíkti á starfsfólkið okkar á Selfossi á laugardaginn og það var magnað að finna fyrir kærleiknum hjá öllum sem þar störfuðu. Fyrirtækin voru búin að bjóða flóttafólkinu í mat, það er magnað að finna fyrir þessum samhug.

Ég og fjölskyldan höfum verið í bústað við Apavatn en svo fékk ég símhringingu frá frænda mínum sem bauð mér húsið sitt og allt sem því fylgir. Enn og aftur felldi ég tár, ég er búinn að missa tölu á þeim fjölda símhringinga og boða um húsaskjól og aðstoð, manni þykir ofboðslega vænt um þetta. Ég fer oft með Æðruleysisbænina og trúi því að þessi samtakamáttur íslensku þjóðarinnar og samhugur okkar Grindvíkinga, muni sigra þessa baráttu og trúi því að ég muni flytja aftur á Heiðarhraun 9 í Grindavík þegar þessu lýkur,“ sagði Magnús Már að lokum.