Flutt inn í smáhýsin í Sandgerði í byrjun febrúar
- Bjarg byggir fimm íbúða raðhús í bænum
Bæjaryfirvöld í Sandgerði gera ráð fyrir að hægt verði að flytja inn í fjögur ný smáhýsi í bænum í byrjun febrúar. Húsunum var komið fyrir á undirstöðum við hlið Þekkingarseturs Suðurnesja við Garðveg nú í upphafi árs.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði, að um sé að ræða fjögur smáhýsi í tveim stærðum, um 50 fermetra, hugsuð fyrir minni fjölskyldur, og um 25 fermetra einstaklingsíbúðir.
„Við gerum ráð fyrir að unnt verði að flytja inn í byrjun febrúar. Um er að ræða bráðabirgðahúsnæði og þessi leið var ákveðin í ljósi mikillar eftirspurnar, en á annan tug umsókna eftir félagslegu húsnæði liggja fyrir,“ segir Sigrún.
Auk þess hefur sveitarfélagið veitt Bjargi Íbúðafélagi stofnframlag til byggingar fimm íbúða raðhúss og verða það leiguíbúðir sem stefnt er að verði byggðar í nýju hverfi á þessu ári.
Á árinu verða einnig teknar í notkun fimm 66 fermetra leiguíbúðir fyrir fólk með fötlun sem byggðar eru af Landssamtökunum Þroskahjálp með stofnframlagi frá Sandgerðisbæ og Íbúðalánasjóði.