Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flutningaskip strandar í Sandgerði
Laugardagur 5. maí 2012 kl. 09:56

Flutningaskip strandar í Sandgerði

Flutningaskipið Fernanda strandaði í Sandgerðishöfn nú á áttunda tímanum. Skipið var að koma inn til hafnar, missti af beygjunni og situr nú fast á klöpp. Engin hætta er talin á ferðum sem stendur en óttast er að skipið geti farið að halla þegar fjarar undan því þegar líður á morguninn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði er á staðnum með björgunarskip. Reynt hefur verið að ýta við skuti skipsins í von um að losa stefnið sem situr fast en það hefur engan árangur borið. Þyrla Landshelgisgæslunnar flaug yfir svæðið í morgun en hún tekur þátt í umfangsmikilli flugslysaæfingu á Keflavíkurflugvelli.

Varðskip LHG, Þór, er á leið á strandstað en það var í Stakksfirði og ætti því að vera komið til Sandgerðis á næstu klukkustundum.


Háfjara er um kl. 11, en háflóð um kl. 17. Reiknað er með að reynt verði að ná skipinu á flot þegar flæðir að, en engin ákvörðun hefur þó verið tekin um hvenær reynt verði að toga í skipið.

Fernando er um 75 metra langt skip og um 2.500 brúttótonn. Skipið er skráð í Dóminíska lýðveldinu.

Hilmar Bragi, fréttamaður Víkurfrétta sendi þessar myndir sem hann tók í Sandgerði kl.10.