Flutningabílstjórar mótmæltu við lögreglustöðina í Keflavík
Flutningabílstjórar í Reykjanesbæ fjölmenntu í kvöld að lögreglustöðinni í Keflavík þar sem þeir mótmæltu aðgerðum lögreglunnar gegn flutninga- og rútubílum í íbúðahverfum. Lögreglan hefur síðustu nætur aðvarað og sektað eigendur þessara ökutækja fyrir að leggja þeim í íbúðahverfum. Bílstjórarnir segja hins vegar að bæjaryfirvöld skapi þessum bílum enga aðstöðu. Því var safnast saman í kvöld við lögreglustöðina í Keflavík og óskað eftir því að fá að geyma bílana þar að næturlagi.Eftir fund með varðstjóra lögreglunnar urðu menn sáttir um að bílarnir verði látnir í friði í nótt en eigendur flutninga- og rútubílanna ætla að fjölmenna við bæjarskrifstofurnar í Keflavík í fyrramálið og fá fund með bæjarstjóra um aðstöðuleysi þessara ökutækja í bæjarfélaginu.