Flugvöllur í Hvassahrauni: „Allt neysluvatn á Suðurnesjum rennur þarna undir“
„Tilfinning okkar hér suður frá er sú að eitt og annað muni koma upp ef skoða á alvarlega byggingu nýs flugvallar í Hvasahrauni,“ segir Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis. Hann bendir á í viðtali við Morgunblaðið að hugsanlegur flugvöllur í Hvassahrauni yrði á helsta vatnsverndarsvæði Suðurnesja. Því væri mikilvægt að rannsaka umhverfisáhrif mjög vel áður en ákvarðanir um mögulegar framkvæmdir yrðu teknar.
Ólafur segir í viðtalinu en hann er líka formaður Svæðaskipulags Suðurnesja að það séu skilgreind vatnsverndarsvæði í svæðisskipulaginu. Hvassahraunið liggi á vatnsverndarsvæði á svokölluðu fjarsvæði vatnsverndar. Takmarkanir séu á því hvers konar starfsemi megi vera þar. Allt svæðið austan Reykjanesbrautar á svæði Suðurnesja sé vatnsverndarsvæði, hraunið á vinstri hönd þegar Reykjanesbraut er ekin frá álverinu og í suðurátt. Þá segir Ólafur að í ábendingu frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja komi fram að fjarsvæði á vatnsverndarsvæðinu í Vogum hafi mikið verndargildi sem mögulegt framtíðarvatnsból.
„Allt neysluvatn á Suðurnesjum rennur þarna undir og við hér suðurfrá hljótum að fara vandlega yfir það hvaða mannvirki geta risið á slíku svæði,“ segir Ólafur Þór.