Flugvellir tilbúnir til byggingaframkvæmda
Niðurstöður á sýnatöku í jarðvegi við Flugvelli sýndu að ekki var um verulega mengaðan jarðveg að ræða og engin þrávirk efni fundust. Samanburður var m.a. gerður á öðrum jarðvegi innan og utan bæjarmarka. Áfram verður fylgst með jarðveginum á svæðinu, fyrstu umsóknir um framkvæmdir á svæðinu liggja nú þegar hjá byggingafulltrúa Reykjanesbæjar.
Þegar vinna hófst við gerð byggingalóða og gatna á Flugvöllum í Reykjanesbæ, hverfi ofan Iðavallar sem ætlað er verslun og þjónustu kom í ljós mikið magn af úrgangi á svæðinu. Tjara fannst í litlu mæli á afmörkuðum stað ásamt því að stór hluti úrgangs á svæðinu tengdist sjósókn og byggingarframkvæmdum frá því Eyjahverfið var að byggjast upp. Verkfræðistofan VERKÍS sá um að hafa umsjón með mælingum á svæðinu og voru jarðvegssýni tekin á mörgum stöðum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja (HES) er einnig í samstarfi en HES hefur eftirlit með mengunarsvæðum á Suðurnesjum.
Bakgrunnsýni voru tekin ásamt jarðvegssýnum á Flugvöllum til að meta náttúrulegan styrk málma í jarðveginum á öðrum svæðum innan bæjarfélagsins og einnig á öðrum stöðum til samanburðar, tekin voru sýni á Miðnesheiðinni og Vatnsleysuströnd.
Niðurstöður sýndu að jarðvegurinn á svæðinu var ekki verulega mengaður og engin þrávirk efni fundust á svæðinu sem skiptir mestu máli.
Skipulagsstofnun staðfesti að flutningur á uppúrtekt væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum eftir að niðurstöður rannsókna lágu fyrir og gaf HES heimild til flutnings af efninu.
Áfram verður fylgst með þegar jarðvegur verður numinn af svæðinu og þegar lóðarframkvæmdir hefjast mun verða stíft eftirlit með framkvæmdum. Vitað er hvar tjara gæti leynst og verður það svæði sérstaklega vaktað þegar framkvæmdir hefjast á því svæði. Lokaúttekt hefur farið fram á Flugvöllum og er nú svæðið klárt til byggingarframkvæmda.