Flugvallarvegur: Fyllt í holurnar eftir helgi
Flugvallarvegurinn í Reykjanesbæ hefur sjaldan eða aldrei verið eins illa farinn og einmitt nú og er ekki von til að breyting verði til batnaðar fyrr en eftir helgi. Þannig stendur á, að sögn Viðars Más Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra umhverfis- og skipulagssviðs bæjarins, að malbiksstöðvar voru ekki starfandi um hátíðarnar og var því ekki hægt að fá efni til að fylla í holurnar.
„Ástandið á veginum er auðvitað til mikilla vandræða,“ sagði Viðar Már, en bætir því við að gert sé ráð fyrir að vegurinn verði á bak og burt innan skamms. „Við munum reyna að halda honum við án þess þó að þurfa að eyða of miklum fjármunum í það. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvarinnar munu hefja viðgerðir strax á mánudag.“
Vegarkaflinn sem um ræðir mun fara undir byggð á næstunni og ný stofnbraut, Borgabrautin, mun taka við. Það er hins vegar óljóst hvenær hún verður orðin að veruleika því hún er ekki enn sem komið er á vegaáætlun Vegagerðarinnar. Hins vegar hefur Reykjanesbær, eins og fram hefur komið í Víkurfréttum undanfarin misseri, boðist til að lána Vegagerðinni fjármagn til að hefja framkvæmdir sem allra fyrst, enda segir Viðar Már að um sé að ræða brýnasta verkefnið sem nú liggi fyrir í skipulagsmálum bæjarins.
Hann segir að senn geti dregið til tíðinda á þeim vettvangi en bjartsýnustu spár geri ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið fyrir lok þessa árs, jafnvel með haustinu.
Það er spurning hversu margir hjólkoppar muni liggja í vegakanti Flugvallarvegar áður en kemur að því.
„Ástandið á veginum er auðvitað til mikilla vandræða,“ sagði Viðar Már, en bætir því við að gert sé ráð fyrir að vegurinn verði á bak og burt innan skamms. „Við munum reyna að halda honum við án þess þó að þurfa að eyða of miklum fjármunum í það. Starfsmenn Þjónustumiðstöðvarinnar munu hefja viðgerðir strax á mánudag.“
Vegarkaflinn sem um ræðir mun fara undir byggð á næstunni og ný stofnbraut, Borgabrautin, mun taka við. Það er hins vegar óljóst hvenær hún verður orðin að veruleika því hún er ekki enn sem komið er á vegaáætlun Vegagerðarinnar. Hins vegar hefur Reykjanesbær, eins og fram hefur komið í Víkurfréttum undanfarin misseri, boðist til að lána Vegagerðinni fjármagn til að hefja framkvæmdir sem allra fyrst, enda segir Viðar Már að um sé að ræða brýnasta verkefnið sem nú liggi fyrir í skipulagsmálum bæjarins.
Hann segir að senn geti dregið til tíðinda á þeim vettvangi en bjartsýnustu spár geri ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið fyrir lok þessa árs, jafnvel með haustinu.
Það er spurning hversu margir hjólkoppar muni liggja í vegakanti Flugvallarvegar áður en kemur að því.