Flugþjónustan braut samkeppnislög
Samkvæmt bráðabirgðaákvörðun Samkeppnisstofnunar hefur Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli brotið gegn samkeppnislögum þegar félagið gerði samning við þýska flugfélagið LTU.
Samkeppnisstofnun hefur ákveðið að Flugþjónustunni sé óheimilt að gera eða framkvæma samninga um flugafgreiðslu vegna farþegaflugs á Keflavíkurflugvelli. Þegar þeir fela í sér einkakaup á þjónustu félagsins og selja þá þjónustu félagsins á verði sem ekki standi undir föstum og breytilegum kostnaði við hverja afgreiðslu.
Félagið Vallarvinir kvartaði til Samkeppnisstofnunar vegna málsins og taldi að Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli hefði gert samkeppnishamlandi verðtilboð til LTU, en á þeim tíma var LTU í viðskiptum við Vallarvini.
Fram kemur í niðurstöðu Samkeppnisstofnunar, að um 10 mánuðir séu liðnir síðan Vallarvinir kvörtuðu við Samkeppnisstofnun. Það hafi ekki verið fyrr en eftir tafsama og ítarlega gagnaöflun að stofnuninni varð ljóst að kostnaðargreining IGS gaf ekki rétta mynd af öllum raunkostnaði félagsins. Ámælisvert er hversu illa IGS hefur sinnt óskum Samkeppnisstofnunar um gögn og upplýsingar.
Hætta sé á því að bið eftir endanlegri niðurstöðu samkeppnisráðs geti leitt til enn frekari röskunar á samkeppni á markaði þessa máls. Verulega er hætt við því að Vallarvinir hrökklist út af markaðnum ef ekki sé gripið til bráðabirgðaráðstafana nú þegar. Það sé því mat Samkeppnisstofnunar að samningur LTU og IGS kalli á aðgerðir samkeppnisyfirvalda, þar sem að öðrum kosti gætu þær komið of seint fram.
Kom þetta fram á vef Morgunblaðsins.
VF-mynd úr safni