FLUGSÝNING Í KEFLAVÍK! HERÞOTA TIL SÝNINS UM HELGINA
Áhugafólk um flugvélar getur gert sér glaðan dag um helgina þegar Suðurflug stendur fyrir umfangsmikilli flugsýningu á Keflavíkurflugvelli. Dagskráin hefst kl. 12 á laugardag við flugskýli Suðurflugs nærri Leifsstöð. Þar verður listflug, herþota og fjöldi einkaflugvéla sýndar, þyrlur vinna verkefni og eru til sýnis, auk þess sem fólk getur kynnt sér starfsemi flugskóla og jafnvel farið í kynningarflug. Þá mun fjöldi flugvéla af öllum stærðum fljúga lágflug yfir svæðið.