Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flugstöðin stækkuð um 14.000 fermetra fyrir 7 milljarða króna
Þriðjudagur 6. desember 2005 kl. 13:30

Flugstöðin stækkuð um 14.000 fermetra fyrir 7 milljarða króna

Norðurbygging Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verður stækkuð á næstu árum og framkvæmdum hraðað svo sem kostur er. Markmið stækkunar og breytinga í flugstöðinni er að bregðast við spám um öra fjölgun farþega á ferð um Keflavíkurflugvöll. Áætlað er að farþegafjöldinn nái 3,2 milljónum árið 2015, hann stefnir í 1,8 milljón í ár, en var aðeins um 460 þúsund þegar fyrsta skóflustungan var tekin árið 1983. Sjálft athafnarýmið til verslunar og þjónustu við farþega stækkar mikið. Þjónusta við farþega verður stóraukin og bætt með ýmsu móti. Nýr tæknibúnaður eykur afkastagetu flugstöðvarinnar, ekki síst á það við um öflugt farangursflokkunarkerfi sem sett verður upp og tekið í notkun árið 2007.

Flugstöðvarbyggingin verður stækkuð til suðurs og skipulagi 1. og 2. hæðar jafnframt breytt svo mikið að líkja má við umbyltingu. Verkið, sem verður framkvæmt í tveimur áföngum, er þegar hafið og áætlað að því ljúki vorið 2007.

Í fyrri áfanga verður vopnaleit færð upp á 2. hæð og hafist handa við breytingar í vesturhluta annarrar hæðar ásamt stækkun byggingarinnar til suðurs þeim megin. Þessum framkvæmdum verður lokið 1. júní 2006. Í seinni áfanga verksins verða breytingar gerðar í austurhluta annarrar hæðar og lokið við að stækka flugstöðina til suðurs.

Allt húsrými á 2. hæð verður lagt undir verslun og þjónustu við farþega. Við skipulagsbreytinguna, og stækkun norðurbyggingar til suðurs, tvöfaldast verslunar- og þjónusturýmið og rúmlega það. Samhliða því verður rekstraraðilum fjölgað. Meðal annars verða opnaðar 10-12 nýjar verslanir á svæðinu, þær fyrstu vorið 2006 og fleiri bætast við til vors 2007.

Tilfæringar á næstunni vegna framkvæmda
Breytingarnar valda óhjákvæmilega talsverðu raski og hafa nokkur áhrif á starfsemi í flugstöðinni. Stjórnendur og starfsmenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. munu vinna markvisst að því, í samstarfi við Ístak hf., að framkvæmdirnar valdi fyrirtækjum á svæðinu og farþegum sem allra minnstum óþægindum.

Inngangur brottfararfarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður færður til bráðabirgða frá og með fimmtudagsmorgni 8. desember næstkomandi. Brottfararfarþegar ganga því næstu mánuði gegnum vopnaleitarhlið áleiðis inn í fríhöfnina við stigahúsið hægra megin við innritunarborðin í flugstöðinni (í suðurenda innritunarsalarins). Núverandi inngangi og vopnaleitarhliðum verður jafnframt lokað og starfsmenn Ístaks hf. hefjast handa við að þilja af vinnusvæði í vesturhluta brottfararsalar á 2. hæð þar sem Íslenskur markaður, Bláa lónið, Fríhöfnin sport og Kaffitár hafa haft starfsemi sína. Þau fyrirtæki munu færa sig um set í flugstöðinni.



Við upphaf háannatímans í ferðaþjónustu sumarið 2006 er gert ráð fyrir því að opna brottfararfarþegum nýja leið úr innritunarsal á jarðhæð upp á 2. hæð þar sem þeir ganga í gegnum vopnaleitarhlið áleiðis inn á fríhafnarsvæðið.

Nokkrar staðreyndir
• Norðurbygging flugstöðvarinnar var alls um 22.000 fermetrar þegar framkvæmdir hófust árið 2003 en hún stækkar um alls 16.500 fermetra og verður 38.500 fermetrar að framkvæmdum loknum vorið 2007. Þessi stækkun er svipuð að umfangi og öll suðurbygging flugstöðvarinnar, sem er 16.000 fermetrar. Að auki er og verður unnið að breytingum og endurbótum af ýmsu tagi á alls 13.000 fermetrum á 1. 2. og 3. hæð norðurbyggingar. Með öðrum orðum koma því alls 30.000 fermetrar við sögu við stækkun og breytingar í norðurbyggingunni á árunum 2003-2007. Eftir þessar breytingar og stækkun verður heildarstærð flugstöðvarinnar um 55.000 fermetrar.
• Lokið er nú þegar breytingum og endurbótum fyrir um 2 milljarða króna í norðurbyggingunni vegna stækkunar innritunar- og komusalar, innréttingar skrifstofurýmis á 3. hæð, byggingar frílagers, framkvæmda á bílastæðum og kaupa og uppsetningar á margvíslegum tæknibúnaði. Áætlað er að fyrirhugaðar framkvæmdir við stækkun og breytingar til vors 2007 muni kosta hátt í 5 milljarða króna til viðbótar, að meðtöldum tækjum og búnaði. Þar ber helst að nefna flokkunarbúnað farangurs sem kostar um hálfan milljarð króna.
• Framkvæmdirnar verða annars vegar fjármagnaðar með lánsfé og hins vegar með fjármunum úr rekstri félagsins en fjármunamyndun rekstrar hefur farið batnandi á undanförnum árum. Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og Kaupþing banki hf. undirrituðu fyrir skömmu samning um 3,3 milljarða króna framkvæmdalán sem breytist í langtímalán við lok framkvæmda.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024