Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 25. júní 2001 kl. 10:35

Flugstöðin rekin með 73 milljóna kr. hagnaði

Hagnaður Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. nam 73 milljónum króna á síðasta ári. Þar sem ríkisstofnanirnar Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli og Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru sameinaðar í hlutafélagið Flugstöð Leifs Eiríkssonar, FLE, 1. október sl. þá er ársreikningurinn myndaður af þriggja mánaða uppgjöri, þ.e. frá 1. október til 31. desember 2000. Ekki er því hægt að bera tölur saman við árið á undan.Rekstrartekjur FLE námu 1.145 milljónum króna. Þar af námu verslunartekjur 964 milljónum króna og leigutekjur 181 milljón króna. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu 791 milljón króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 354 milljónir króna. Fjármagnsgjöld og gengismunur nam 244 milljónum króna en að teknu tilliti til fjármagnstekna og tekna vegna verðlagsbreytinga voru fjármagnsliðir neikvæðir um 120 milljónir króna.
Í ársskýrslu kemur fram að veiking krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar skýri að verulegu leyti hvað fjármagnsgjöld hafa hækkað á milli ára því mest af langtímaskuldbindingum fyrirtækisins er í dollurum. Heildareignir FLE eru bókfærðar á 11.312 milljónir króna í árslok á móti 10.588 milljónum króna 1. október 2000. Skuldir fyrirtækisins námu 7.917 milljónum króna í árslok og eigið fé 3.395 milljónum króna. Skuldir aukast um 609 milljónir frá 1. október til ársloka. Eiginfjárhlutfall var 30% í árslok. Veltufé frá rekstri nam 341 milljón sem er um 30% af rekstrartekjum. Handbært fé í árslok er 1.149 milljónir króna.

Erlend langtímalán hagstæðari en innlend vegna vaxtamunar
Í ársskýrslu FLE kemur fram að fyrirtækið telji hagkvæmara til lengri tíma litið að fjármagna fjárfestingar að stórum hluta með erlendum langtímalánum vegna þess mikla vaxtamunar milli erlendra mynta og íslensku krónunnar þrátt fyrir gengissveiflur árið 2000.
„Íslenska krónan veiktist verulega á tímabilinu og varð bókhaldslegt tap félagsins vegna erlendra lána talsvert. Veiking krónunnar hefur hins vegar til lengri tíma litið jákvæð áhrif á tekjur félagsins, sem eru að verulegum hluta háðar erlendum gjaldmiðlum. Þrátt fyrir bókhaldslegt gengistap er sjóðsstaða félagsins sterk þar sem vaxtagreiðslur af erlendum lánum eru lægri en ef skuldir væru í íslenskum krónum.
Unnið er að endurfjármögnun og fjármögnun framkvæmda. Félagið mun hafa að leiðarljósi við þá fjármögnun að erlendu lánin séu samsett úr gjaldmiðlum sem endurspegli tekjumyndun fyrirtækisins og að það verji sig þannig gegn innbyrðis sveiflum með virkri áhættustýringu,“ segir í ársskýrslu FLE.
Í skýrslu stjórnarformanns kemur fram að áætluð velta félagsins verði um 4,7 milljarðar króna í ár. Hlutafé er nú 2,5 milljarðar króna og er allt í eigu ríkissjóðs. Eigið fé er um 3,4 milljarðar. Heildarlaunagreiðslur eru áætlaðar 500 milljónir króna í ár.
Áformað er að taka í notkun að minnsta kosti 2.000 fermetra þjónustusvæði í Suðurbyggingu á næstu misserum. Við það mun verslunar- og veitingaaðstaða aukast til muna og þjónusta við farþega batna. Auk þess sem tekjuöflun félagsins mun styrkjast að sama skapi.
Félagið mun bæði leigja út verslunarrými og veitingaaðstöðu auk þess sem það mun setja upp eigin verslanir í Suðurbyggingu samhliða annarri verslunaruppbyggingu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024