Flugstöðin orðin vinsælt gistiheimili
„Það er mjög erfitt að eiga við þetta. Margir koma hingað kvöldið áður en þeir eiga morgunflug eldsnemma til þess að reyna að sleppa við að borga fyrir síðustu nóttina á hóteli,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia aðspurður um sofandi flugfarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það hefur verið áberandi í sumar, fjölmargir hafa lagt sig á víðs vegar á neðstu hæðinni og sparað sér þannig gistinótt á hóteli eða gistiheimili.
„Flugstöðin er alltaf opin, en það er ekki leyfilegt að sofa á innritunarsvæðinu. Það sem við gerum er að öryggisverðir ganga hringinn og benda fólki á að það sé ekki leyfilegt að sofa og láta það vita af t.d. hótel Smára og gististöðum í Keflavík. Núna eftir því sem flugið eykst og tíminn yfir nóttina þegar ekkert er í gangi styttist þá er mjög erfitt að halda utan um það hver er að bíða eftir að innritunin opni og hver er kominn til þess að sleppa við að borga síðustu nóttina á hóteli og freista þess að sofa í innritunarsalnum,“ sagði Guðni.
Meðfylgjandi myndir voru teknar rétt eftir miðnætti nýlega. Nokkrir tugir manna voru í stöðinni, m.a. sofandi á milli sjálfsafgreiðsluvéla, inni á veitingastað J&J og við stigann á leið upp í vopnaleitina.