Flugstöðin full af fólki
Mikill fjöldi flugfarþega hefur lent í vandræðum í ófærðinni og óveðrinu. Öllu morgunflugi hefur verið aflýst á mánudagsmorgni. Óveðrið hafði strax veruleg áhrif á laugardaginn þegar öllu seinni parts flugi var aflýst. Flugstöðin fylltist nánast af fólki sem var að koma eða á leið í framhaldsflug. Mörg hundruð þurftu að fara í næturgistingu.
Hleypa þurfti farþegum niður í töskusal í hollum. Fréttamaður Víkurfrétta var í þeim hópi og tók meðfylgjandi myndir við heimkomu síðdegis á laugardag og hafði þá beðið hátt í tvær klukkustundir í flugvél Icelandair úti á flughlaði þar sem ekki var hægt að keyra vélinni að flugstöðinni.
Nokkur þúsund manns eru á faraldsfæti nú rétt fyrir jól, ýmist á leið í sólina yfir hátíðarnar eða annað og síðan eru margir Íslendingar á leiðinni heim í jólahátíð.
Troðfullur töskusalur, fólk að bíða eftir töskunum sínum.
Mörg hundruð í óvissu frammi í flugstöð. Flestir þurftu að fá næturgistingu síðdegis á laugardag þar sem flug var fellt niður, m.a. til Bandaríkjanna. Hóteleigendur á Suðurnesjum voru á staðnum til að hjálpa til og koma fólki í næturgistingu.