Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flugstjóri flugvélarinnar sem fórst í Grikklandi starfaði hjá Bláfugli
Þriðjudagur 16. ágúst 2005 kl. 18:16

Flugstjóri flugvélarinnar sem fórst í Grikklandi starfaði hjá Bláfugli

Flugstjóri flugvélarinnar sem fórst í Grikklandi á sunnudaginn starfaði hjá flugfélaginu Bláfugli á Keflavíkurflugvelli fyrir um ári síðan samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Þetta staðfesti framkvæmdastjóri Bláfugls, Þórarinn Kjartansson, í samtali við Víkurfréttir nú fyrir skömmu.

Flugstjórinn hét Hans-Juergen Merten og var 58 ára gamall Þjóðverji en hann lést ásamt 115 farþegum og 5 manna áhöfn.

„Hann starfaði hjá okkur um skamma hríð,“ sagði Þórarinn Kjartansson í samtali við Víkurfréttir. „Hann var hjá okkur í gegnum áhafnarleigu en það er oft sem við fáum flugmenn í einhvern ákveðinn tíma eftir þörfum í gegnum slíkar leigur,“ sagði Þórarinn. Flugvélin sem Merten flaug fyrir Bláfugl var af gerðinni Boeing 737-300 en það er sama gerð og hann flaug í sinni hinstu ferð fyrir flugfélagið Helios Airways.

Samkvæmt sögusögnum sem viðraðar eru á sameiginlegu spjallsvæði flugmanna var Merten látin fara frá breska flugfélaginu Jet2.com fyrir nokkru síðan. Ástæðurnar voru sagðar þær að flugmenn fyrirtækisins kærðu sig ekki um að fljúga með honum vegna ýmissa atvika. Það hefur ekki fengist staðfest hjá flugfélaginu.

Ekkert bendir þó til þess að mistök af hans hálfu hafi leitt til brotlendingar flugvélarinnar í Grikklandi.

Merten vann fyrir áhafnaleiguna Direct Personnel International sem er staðsett á Írlandi. Að minnsta kosti tvö íslensk flugfélög starfa með því fyrirtæki. Framkvæmdastjóri Direct Personnel International, Hans Waremen, sagði í samtali við Víkurfréttir að fyrirtæki hans ætti eftir að hjálpa til í rannsókninni en að það ferli væri ekki enn byrjað. Hann vildi ekki segja neitt til um það hvort einhver íslensk fyrirtæki leigðu áhafnir frá hans fyrirtæki. 

Flugmaður grískrar herþotu sem fór framhjá flugvélinni rétt fyrir slysið greindi frá því að Merten hafi ekki verið í sæti sínu skömmu áður en flugvélin fórst. Hann sagðist þó hafa séð tvo menn reyna að ná stjórn á vélinni. Sérfræðingar segja loftþrýsting hafa fallið með þeim afleiðingum að flugstjórar flugvélarinnar hafi misst meðvitund. Flugvélin hafi þá í kjölfarið hrapað stjórnlaust til jarðar.

Fjölmiðlar á Grikklandi hafa greint frá því að fólkið hafi frosið í hel en yfirvöld í Grikklandi segja líkin ekki hafa verið köld þegar þau fundust.

Helios Airways staðfesti í yfirlýsingu sem þeir birtu á vefsíðu sinni að félagið hafi einu sinni áður orðið fyrir því að loftþrýstingur hefði fallið í flugvél þeirra. Flugfélagið staðfesti einnig að vélin sem hefði lent í því hafi verið sú sama og brotlenti á Grikklandi.

VF-mynd: Af vefsíðu Bláfugls

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024