Flugskýli rís í stað gömlu flugstöðvarinnar

Nýtt deiliskipulag fyrir Austursvæði og Háaleitishlað Keflavíkurflugvallar hefur verið samþykkt í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. Athugasemdafrestur við skipulagið rann út 18. október sl.

Að sögn Sveins Valdimarssonar, skipulagsfulltrúa Keflavíkurflugvallar, bárust athugasemdir við deiliskipulagið. Þær voru afgreiddar á fundi skipulagsnedndar 27. október og deiliskipulagið svo sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Þegar Skipulagsstofnun hefur samþykkt skipulagið verður það auglýst og tekur gildi þegar auglýsing birtist. Deiliskipulagssvæðið er um 108 ha og liggur í suðaustur jaðri Keflavíkurflugvallar og afmarkast til suðurs af umráðasvæði Landhelgisgæslunnar, til vesturs af flugbrautarsvæði, til norðurs af deiliskipulagi NA-svæðis og til suðausturs af götunni Þjóðbraut að skipulagssvæði Reykjanesbæjar. Deiliskipulagið byggir á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2013 – 2030.

Gamla flugstöðin rifin

Samkvæmt nýja deiliskipulaginu sem nú býður afgreiðslu Skipulagsstofnunar er gert ráð fyrir að gamla flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verði fjarlægð og á lóðinni rísi flugskýli og flugtengd þjónusta. Þannig hafa Ríkiskaup nú auglýst niðurrif á gömlu flugstöðinni en heildarstærð húsnæðisins er 7750 fermetrar. Tilboð verða opnuð í næstu viku en verkinu skal lokið 30. apríl á næsta ári.