Flugriti sendur utan – upptökur á samskiptum rannsakaðar
Flugriti JetX-farþegavélarinnar, sem hafnaði utan brautar á Keflavíkurflugvelli í fyrrinótt, verður sendur utan til rannsóknar.
Þá kemur meðal annars í ljós hvort vélin hafi lent of innarlega á brautinni og hvort brensuskilyrði hafi verið undir lágmarki.
Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að bremsuskilyrði hafi verið algerlega ófullnægjandi og önnur en upplýsingar frá flugturni gáfu til kynna. Því hafi reynst erfitt að hafa stjórn á hraða vélarinnar eftir lendingu.
Á mbl.is er í morgun haft eftir stjórnanda rannsóknarinnar að næsta skref sé að rannsaka upptökur á samskiptum flugmanna og flugturns.
Á visi.is er haft er eftir Friðþóri Eydal, upplýsingafulltrúa Flugmálastjórnar, að flugmálastjórn ynni að rannsókn málsins í samvinnu við Rannsóknarnefnd flugslysa og þangað til niðurstöður rannsóknarinnar lægju fyrir myndi flugmálastjórnin ekki tjá sig um málið.