Flugmálastjórnin reiðubúin í ný verkefni
Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli (FMS) og Flugstöð Leifs Eiríkssonar verða sameinuð í eitt fyrirtæki undir samgönguráðuneytinu fyrir áramót ef frumvarp þess efnis nær fram að ganga. Þetta hefur komið fram áður í fréttum Víkurfrétta, en í greinargerð á vef Flugmálastjórnarinnar segir að færsla á verkefnum frá varnarliðinu til FMS hafi gengið vel í alla staði á þessu rúma ári sem liðið er frá því að Kaninn fór.
Þar kemur fram að rekstur flugvallarins sé í örum vexti þar sem yfir 2 milljónir farþega fóru um völlinn á síðasta ári. Fjöldinn hefur þar með tvöfaldast á áratug.
Lendingum í almennu gjaldskyldu flugi á Keflavíkurflugvelli fjölgaði um rúm níu prósent á síðasta ári. Heildarvelta FMS á þessu fyrsta ári sem heildarrekstur vallarins er á hennar hendi er áætluð tæplega 2,7 milljarðar króna.
Með sameiningu félaganna verður stuðlað að sjálfsbærum rekstri og tryggt að tekjur nýtist í uppbyggingu flugvallarins. Jafnframt verða þjóðréttarlegar skuldbindingar á sviði öryggis og varnarmála uppfylltar.
Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri, segir í greinargerðinni að stjórnendur og starfsmenn Keflavíkurflugvallar hafi gengið ötullega fram og sameining og endurskipun verkefna hafa verið hnökralaus. „Við erum reiðubúin að takast á við ný verkefni vegna fyrirhugaðra rekstrarbreytinga. Sérþekking og fagmennska eru grundvallaratriði í flugvallarrekstri.“
Heimasíða Flugmálastjórnarinnar
Loftmynd/Oddgeir Karlsson