Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli tekur yfir slökkvilið og flugtengda starfsemi
Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli mun með nýjum lögum taka yfir rekstrarþætti sem hafa verið á hendi Bandaríkjamanna m.a. er lýtur að flugtengdri starfsemi sem hefur verið í höndum varnarliðsins og viðkomandi deildum. Þar má telja rekstur slökkviliðs og viðkomandi deilda. Þetta er gert í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjamanna að kalla nánast allt sitt lið frá Íslandi. Eftir þessa breytingu er gert ráð fyrir því að starfsmenn Flugmálastjórnar verði um 200 talsins.
„Þetta hefur verið í óvissu eins og allir vita en nú fer að komast festa á hlutina og tryggir þannig áfram snurðulausan rekstur hér á Keflavíkurflugvelli,“ sagði Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri í samtali við VF.
Fjármálaráðuneytið hefur ekki forsendur til að meta stofnkostnað sem fylgir yfirtöku íslenska ríkisins á rekstri sem Bandaríkjaher hefur haft með höndum vegna Keflavíkurflugvallar. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins gæti matsvirði fasteigna og tækja verið um 4,3 milljarðar kr. en óvisst er með útfærslu og endurgjald við yfirtöku þeirra. Talið er að árlegur rekstrarkostnaður verkefna sem færast frá hernum til ríkisins nemi um 1.420 m.kr. á ári. Tekjur sem renna til Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar munu vera öryggisgjald og lendingargjöld.
Í nýju frumvarpi til laga sem taka munu gildi 1. júní nk. er m.a. sagt að Flugmálastjórn sé heimilt að semja við sveitarfélög eða byggðarsamlag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli. Ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu hljóðar m.a. um að eftir því sem við verði komið skuli bjóða starfsfólki störf hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar sem hefur unnið á árinu 2006 hjá deildum varnarliðsins eins og slökkviliði, snjóruðnings- og brautadeild, rafeindadeild, voltadeild og verkfræðideild.
Í greinargerð frumvarpsins segir m.a.:
Uppsagnir starfsmanna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, þar með margra sem starfa að málefnum flugvallarins, geta leitt til þess að vel menntað og þjálfað starfsfólk hverfi af starfssvæðinu. því er nauðsynlegt að sem fyrst sé hægt að bregðast við svo rekstrarhæfni flugvallarins raskist ekki með því að lykilstarfsfólk hverfi til annarra starfa.
Í ákvæðum til bráðabirgða í frumvarpi þessu er að finna heimild til að ráða, án auglýsingar, þá starfsmenn varnarliðsins sem nauðsynlegir eru til að tryggja áframhaldandi snuðrulausan rekstur Keflavíkurflugvallar.
Yfirtaka á rekstri þjónustueininga.
Embætti Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar skiptist í dag niður í fjögur svið, þ.e. flugvallarsvið, öryggissvið, flugumferðarsvið og almenna skrifstofu. Yfir sviðunum er einn flugvallarstjóri. Alls starfa þarna í dag um 62 starfsmenn.
Varnarliðið hefur verið vinnuveitandi slökkviliðs, snjóruðnings- og brautadeildar, rafeindadeildar, voltadeildar og verkfræðideildar á Keflavíkurflugvelli. Starfsmenn slökkviliðsins og framangreindra deilda eru um 150 talsins og allir íslenskir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að framangreindar þjónustueiningar færist undir Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Lauslega áætlað munu starfsmenn Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar við þessar breytingar verða um 200 talsins.
Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar heyrir áfram undir yfirstjórn utanríkisráðherra.