Flugmælingar sýna hraunrennsli upp á 32 m3/s fyrstu tímana
Í dag hófst eldgos í Meradölum, á um 300 m langri sprungu sem liggur í NNA upp í hlíðar vestasta Meradalahnjúksins. Sprungan er um það bil einn kílómetra norðaustur af megingígnum sem var virkur í gosinu Fagradalsfjalli í fyrra. Það gos stóð í sex mánuði frá mars fram í september á síðasta ári. Staðsetningin fellur vel að því að gossprungan liggi yfir suðurenda gangsins sem verið hefur að myndast í jarðskorpunni undanfarna daga, segir í færslu Jarðvísindastofnunar Háskólans.
„Eins og með gosið í fyrra er ætlunin að birta á vefsíðu Jarðvísindastofnunar þær mælingar sem gerðar verða á rúmmáli hraunsins og reikninga á hraunflæði. Hér er facebook síðan notuð til bráðabirgða en vefsíða JH verður virkjuð á morgun. Upplýsingar um jarðefnafræðilega eiginleika og gaslosun verða einnig kynntar eins og tök eru á. Fyrsta flugið til mælinga á nýja hrauninu var nú síðdegis.
Mælingar á hraunflæði:
Mæling á rúmmáli hraunsins fór fram í dag kl. 17:05. Þá voru teknar loftmyndir með Hasselblad myndvél Náttúrufræðistofnunar úr flugvél Fisfélags Reykjavíkur, TF-204. Gerð hafa verið landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við eldri gögn.
Hraunið mældist um 74.000 m2 (0,074 km2), meðalþykktin 5,9 metrar og rúmmálið 0,43 millj. rúmmetrar. Gosið hafði á þessum tímapunkti staðið í þrjá og hálfan klukkutíma.
Meðal hraunflæði fyrstu tímana er 32 rúmmetrar á sekúndu. Þetta er um 4-5 sinnum meira en var í byrjun gossins í fyrra.
Gosið nú er því mun kröftugra, en telst þó ekki í röð aflmeiri gosa. Stefnt er að því að mæla helst einu sinni á dag til að byrja með og verða tölur uppfærðar um leið og niðurstöður berast.
Um kortlagningu hraunsins:
Reiknað er með að eftirfarandi tvær aðferðir verði notaðar til að kortleggja hraunið:
1. Myndir teknar lóðrétt niður á hraunið og síðan unnið landlíkan úr myndunum.
2. Mælingar úr Pléiades gervitungli frönsku geimvísindastofnunarinnar. Tunglið fer yfir a.m.k. einu sinni á dag en nær ekki myndum ef skýjahula þekur svæðið.
Rúmmál hraunins er fengið með því að draga eitt landlíkan frá öðru. Mælingar eru festar við nýleg nákvæm landlíkön sem unnið hefur verið af öllu landinu. Nákvæmni landlíkana er talin vera 20-30 cm í hæð,“ segir í færslu Jarðvísindastofnunar HÍ.