Flugið og höfnin eiga samleið
Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, í viðtali
Hjá Reykjaneshöfn starfa sjö manns en þar af ganga sex manns vaktir en starfsemi er hjá höfninni allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, allar vikur ársins. Menn eru jafnvel að á aðfangadagskvöld en dæmi eru um það hjá höfninni að taka hefur þurft á móti eða fylgja úr höfn skipi á aðfangadagskvöld, jóladag og á gamlárskvöld. Halldór Karl Hermannsson er hafnarstjóri Reykjaneshafnar. Sjónvarpsmenn Víkurfrétta ræddu við Halldór í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta í síðustu viku. Spjallið varð hins vegar mun lengra en rúmast í stuttu sjónvarpsinnslagi og er viðtalið í heild sinni hér. Fyrst ræddum við um nýjasta útspil hafnarinnar, sem er samstarfið við Cruise Iceland.
Reykjaneshöfn hefur gengið til samstarfs við regnhlífarsamtökin Cruise Iceland. Þau vinna í markaðssetningu hafna á Íslandi vegna komu farþega- og skemmtiferðaskipa. Komum skipa hefur fjölgað á undanförnum árum og skipin hafa bæði stækkað og minnkað. Þannig er Reykjaneshöfn að horfa til þess að geta tekið á móti farþegaskipum með allt að 300 farþega.
Stjórn og starfsmenn Reykjaneshafnar fóru í greiningarvinnu síðasta sumar þar sem þarfir og þjónustuhlutverk hafnarinnar voru metnar en undir Reykjaneshöfn heyra fimm hafnir. Þær eru í Helguvík, Gróf, Keflavík, Njarðvík og Höfnum.
„Í þessari vinnu kom upp sú hugmynd að í Keflavíkurhöfn væri tilvalið að taka á móti minni farþegaskipum. Staðsetningin gagnvart bænum er góð og höfnin er falleg. Við sáum það í sumar þegar við fengum farþegaskip í þessum stærðarflokki sem við höfum horft til að það smellpassaði inn í þetta umhverfi okkar,“ segir Halldór Karl.
Ræður nálægðin við Keflavíkurflugvöll miklu?
„Við sáum það alla vega að þeir sem hafa verið að bjóða fram hafnaraðstöðu sína hafa m.a. bent á það að það sé stutt á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík, jafnvel þó það sé hálftími, klukkutími eða ívið lengur, þá telst það stutt. Við erum fimm mínútur frá flugvellinum. Við hljótum því að vera einstaklega vel settir með tengingu slíkra skipa ef þau eru að losa sig við farþega og fá nýja, þá er eiginlega hvergi betra að vera en hér“.
Halldór segir að samstarf við Cruise Iceland og markaðssetning hafna skili góðum árangri. Þannig hafi Akraneshöfn farið þessa leið fyrir tveimur árum. Höfnin þar fékk eitt farþegaskip 2017 en í ár voru þau fimmtán. Halldór segir jafnframt að horft sé til þess að farþegar geti annað hvort farið upp í rútur á hafnarbakkanum til að fara í lengri skoðunarferðir eða hitt leiðsögumenn á hafnarbakkanum sem færu með minni hópa í skoðunarferðir í nærumhverfinu. „Við erum með einstaka náttúrufegurð hér á Reykjanesinu og getum boðið upp á fullt af stöðum sem eru ferðamannavænir og veita mikla upplifun. Svo höfum við samfélagið hér í Reykjanesbæ þar sem við getum boðið upp á alls konar afþreyingu, hvort sem það eru veitingastaðir, verslanir, söfn eða allt annað sem dregur að fólk og skapar þeim góðar minningar.“
Keflavíkurhöfn hefur tekið breytingum í áranna rás. Hún er ekki eins mikil fiskiskipahöfn nú og áður. Það lifnar þó yfir höfninni síðla sumars þegar makríllinn kemur en hann er nánast að veiðast innan hafnar eða mjög skammt frá hafnarmannvirkjunum. Tugir makrílbáta gera út frá höfninni frá því í júlí og fram undir miðjan september þegar makrílveiðunum lýkur.
„Makríllinn byrjaði að sýna sig upp úr 2012 en árið 2016 varð algjör sprengja en þá lönduðu menn hér 8000 tonnum af makríl og þar af voru 6000 tonn af handfærabátum. Það var ívið minna í fyrra og mun minna í ár. Við erum á þessum tímapunkti með 1000 tonnum minna í ár en í fyrra á sama tíma. Það er rétt hjá þér að þetta er ekki mikil fiskiskipahöfn og við höfum verið að landa á milli 4000–5000 tonnum af botnfiski á ári og hefur verið þannig frá því um árið 2000. Í Helguvík er svo uppsjávarverksmiðjan og þar eru þrjár vertíðir, loðna, makríll og síldin. Við höfum alltaf verið í endann á þessum vertíðum þannig að þetta hafa verið vika eða hálfur mánuður í hvert sinn. Sveiflan í uppsjávarveiðum hefur verið það mikil að eitt árið hafa borist 31.000 tonn í Helguvík á meðan hitt árið voru tonnin aðeins 4000.“
Halldór segir að reynt hafi verið að leggja mat á það hvert þjóustuhlutverk hafnanna ætti að vera. Niðurstaðan er sú að Keflavíkurhöfn hentar einstaklega vel sem farþegaskipahöfn á meðan fiskiskip og sjávarútvegur verði þjónustaður í Njarðvíkurhöfn. Þá er Njarðvíkurhöfn einnig ákveðinn tengiliður við Skipasmíðastöð Njarðvíkur en slippurinn nýtir sér aðstöðu í höfninni áður en skip fara í slipp og einnig eftir að þau eru tekin niður og gerð sjóklár að nýju. Innsiglingin að Njarðvíkurhöfn þarfnast dýpkunar og hefur höfnin óskað eftir framlagi til að ráðast í dýpkun þar í samræmi við þá viðlegu sem hægt er að hafa í höfninni og ekki þurfi að nýta flóð og fjöru við inn- og útsiglingar.
„Smábátaútgerð á þessu svæði hefur snarminnkað síðan smábátahöfnin í Gróf var tekin í notkun uppúr 1990 þegar gert var ráð fyrir 84 leguplássum í höfninni. Það er hins vegar mun minni nýting á henni í dag. Í Grófinni sáum við fyrir okkur sambland af smærri fiskibátum og ferðaþjónustu. Það hefur aðili verið að þróa ferðaþjónustu í Grófinni síðustu tvö ár og hefur gengið vel. Við hefðum viljað sjá fleiri koma að málum. Við erum með hugmyndir um að fara í skipulag á svæðinu þannig að í framtíðinni sjáum við ferðaþjónustutengda starfsemi. Má nefna þjónustu sem snýr að sjónum og svo kannski handverk og veitingastaðir, svo eitthvað sé nefnt. Við sjáum þetta víða, eins og á gömlu höfninni í Reykjavík, Húsavík og Akureyri“.
Í Helguvík er draumur hafnarstjórans að byggð verði upp stór fraktskipahöfn, því fraktin er einn af möguleikum hafnarinnar til að auka tekjur. „Við þurfum að fjölga eggjum og skipuleggja okkur vel til framtíðar,“ segir Halldór.
Helguvíkurhöfn er eina höfn landsins sem tekur á móti flugvélaeldsneyti. Allt flugvélaeldsneyti sem kemur til landsins fer þar á land en að jafnaði kemur eitt eldsneytisflutnigaskip í mánuði til Helguvíkur. Höfnin ræður við móttöku allt að 220 metra langra skipa en höfnin er upphaflega byggð fyrir móttöku um 170 metra skipa, svokallaðra Panamaskipa, fyrir Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.
„Það er mjög einstakt að búa við það að vera með hafnaraðstöðu sem getur tekið djúprist skip en Helguvíkurhöfn er ein af dýpstu höfnum landsins og að vera með flughöfn þar við hliðina, sem er Keflavíkurflugvöllur. Í stað þess að kalla þetta Keflavíkurflugvöll og Reykjaneshöfn, þá ætti þetta að heita „The Ports of Reykjanes“, því bæði eru þetta port eða gáttir“.
Hver er staðan núna í Helguvík og hver eru næstu skref?
„Við höfum sótt í samgönguáætlun um stuðning við uppbyggingu hafnarmannvirkja, m.a. í tengslum við þau verkefni sem eru komin og einnig vegna þeirra verkefna sem stendur til að komi. Við vonumst til að vera inni á þeirri samgönguáætlun sem nú verður lögð fyrir þingið. Þetta er grátleg saga með kísilverið en vonandi verður góður endir á þeirri sögu, hvernig svo sem hann svo verður. Við sækjum í það að þjónusta fyrirtæki sem eru með mikla frakt því í henni liggja tekjur fyrir höfnina. Við vitum ekki betur en hitt verkefnið, kísilverksmiðja Thorsil, sé ennþá í gangi. Við verðum því að sjá til hvað gerist þegar hún rís“
Nú var Eimskip komið með reglulega flutninga til og frá Helguvík en það er ekki lengur til staðar.
„Það er mikilvægt fyrir höfn sem er að byggja sig upp fyrir fraktflutninga að ná aðilum sem eru stórir eins og Eimskip eða Samskip með reglulega viðkomu í höfninni. Eimskip var með samning við United Silicon um flutninga fyrir verksmiðjuna og voru með viðkomu í Helguvík á hálfsmánaðar fresti. Sagan varð hins vegar sú að afurðirnar eru minni en áætlað var og engar að lokum en skipafélögin þurfa ákveðinn grunn til að geta byggt upp viðkomuhöfn“.
Að lokum er það spurningin sem brennur á fjölmörgum Njarðvíkingum. Hvað verður um rússatogarann Orlik sem nú liggur við festar í höfninni í Njarðvík?
„Orlik kom hingað haustið 2014 þar sem menn voru með ákveðnar hugmyndir um niðurrif á skipinu í Helguvík, sem þarf sérstaka heimild til og samkvæmt nýjustu reglugerðum er erfitt að fá þá heimild. Ég kom hingað til starfa 1. júní 2015 og síðan þá hefur það verið eitt af meginverkefnum í mínum huga að koma þessu flykki eitthvað frá. Togarinn er lýti í umhverfinu og reynir einnig mjög á þol hafnarmannvirkjanna í Njarðvík. Við erum hræddir við það að ef ekki finnst lausn á því að koma skipinu úr höfninni, þá eigi hann annað hvort eftir að slitna upp eða sökkva. Við vitum að byrðingurinn er orðinn mjög þunnur.
Við höfum einu sinni lent í því að togarinn var næstum því sokkinn og það voru bara fræknir menn hjá Köfunarþjónustu Sigurðar sem að björguðu því að hann fór ekki bara á botninn og eiga þeir hrós skilið fyrir það. Við erum stöðugt í sambandi við Hringrás, sem er eigandi skipsins, um framkvæmdina. Þar sem botninn er orðinn svo þunnur þá er álitamál hvort hægt sé að draga skipið yfir hafið og að hann sökkvi ekki á leiðinni. Ég er ekki viss um að það sé yfirleitt hægt.
Við höfum boðið uppá það að menn fái aðstöðu í Helguvík til að rífa hann þar niður ef menn fengju heimild til þess frá þar til bærum yfirvöldum. Síðan síðustu skip voru rifin þar hafa reglur þyngst og meiri kröfur gerðar. Við vitum að það hafa verið tekin öll spilliefni úr skipinu nema asbest. Við vitum að eigandinn er að reyna að fá þetta leyfi en það er ekki komið. Við þurfum að taka afstöðu til þessa máls fljótt því því ég held að þetta skip sé ekki á vetur setjandi.
Ég er hræddur um að það eigi eftir að valda einhverju slæmu nú á komandi vetri ef ekki verður brugðist við nú á haustdögum“.
Viðtal og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Við höfum einu sinni lent í því að togarinn var næstum því sokkinn og það voru bara fræknir menn hjá Köfunarþjónustu Sigurðar sem að björguðu því að hann fór ekki bara á botninn og eiga þeir hrós skilið fyrir það. Við erum stöðugt í sambandi við Hringrás, sem er eigandi skipsins, um framkvæmdina. Þar sem botninn er orðinn svo þunnur þá er álitamál hvort hægt sé að draga skipið yfir hafið og að hann sökkvi ekki á leiðinni. Ég er ekki viss um að það sé yfirleitt hægt.
Við höfum boðið uppá það að menn fái aðstöðu í Helguvík til að rífa hann þar niður ef menn fengju heimild til þess frá þar til bærum yfirvöldum. Síðan síðustu skip voru rifin þar hafa reglur þyngst og meiri kröfur gerðar. Við vitum að það hafa verið tekin öll spilliefni úr skipinu nema asbest. Við vitum að eigandinn er að reyna að fá þetta leyfi en það er ekki komið. Við þurfum að taka afstöðu til þessa máls fljótt því því ég held að þetta skip sé ekki á vetur setjandi.
Ég er hræddur um að það eigi eftir að valda einhverju slæmu nú á komandi vetri ef ekki verður brugðist við nú á haustdögum“.
Viðtal og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson