Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flugið eykur hag Helguvíkurhafnar
Olíuflutningaskipið Unique Explorer frá Hong Kong kemur til Helguvíkurhafnar sl. föstudag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 22. mars 2016 kl. 09:56

Flugið eykur hag Helguvíkurhafnar

- 20.000 tonn af flugvélaeldsneyti skilja eftir rúmar 7 milljónir í Reykjanesbæ

Helguvíkurhöfn hagnast um tugi milljóna króna á ári með aukinni flugumferð. Á síðasta ári komu tólf olíuflutningaskip til hafnar í Helguvík með flugvélaeldsneyti fyrir Keflavíkurflugvöll. Hver skipakoma skilar milljónum í annars auralítinn kassa hafnarinnar.

Þegar olíuflutningaskip leggst að bryggju í Helguvík þá skiptir máli hversu stórt skipið er í brúttótonnum. Þannig getur þriggja sólarhringa stopp hjá 25.000 brúttótonna skipi skilað 1.560.250 krónum í skipagjöld og 15.000 brúttótonna skip skilar 827.250 krónum fyrir sama tíma.

Þá skiptir miklu máli hversu miklum farmi er skipað upp. Á hvert tonn af eldsneyti sem er dælt frá borði leggjast 355 krónur. Það þýðir að þúsund tonn af eldsneyti skila 355.000 krónum til hafnarinnar. 1.000 tonn eru því 355.000 krónur og 20.000 tonn skilja eftir sig 7,1 milljón króna. Að meðaltali var skipað upp 18.000 tonnum af flugvélaeldsneyti í hverri skipakomu olíuskipa á síðasta ári og þær voru tólf, eins og áður hefur komið fram og eldsneytistonnin 216.000. Þá borga skipin sérstaklega fyrir hafnsöguþjónustu og fyrir lóðsbáta.

Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, sagði í samtali við Víkurfréttir að þessar skipakomur skipti höfnina miklu máli. Með aukinni flugumferð til landsins á þessu ári má annað hvort búast við fleiri olíuflutningaskipum eða stærri skipum.

Aðstæður til að taka á móti olíuflutningaskipum í Helguvík eru góðar. Þannig er höfnin í Helguvík það djúp að hingað koma olíuskip á leið til Noregs til að létta sig áður en þau sigla inn Oslóarfjörð með eldsneyti fyrir Gardemoen-flugvöll. Flugvélaeldsneytið kemur hingað m.a. frá Suður-Ameríku en hingað sigla skipin frá Venesúela og skilja eftir hluta farmsins hér áður en haldið er áfram til Noregs.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024