Flugfarþegar deyja ekki ráðalausir í kreppunni: Leggja við ókunnug heimahús og fara í flug
Í kreppunni upphugsar fólk ýmsar leiðir til að spara. Ein er sú að leggja bílnum sínum langtímum við ókunnug heimahús í Reykjanesbæ þegar maður dvelur erlendis í stað þess borga geymslugjald upp í Leifsstöð. Nokkuð hefur borið á þessu undanfarið.
Íbúi við Heiðarenda í Reykjanesbæ benti VF á bifreið sem lagt hafði verið í stæði við íbúðablokk sem hann býr í. Nágranni hans horfði á það í forundran einn morguninn þegar bílnum var lagt í stæðið við blokkina, farangur færður yfir í annan bíl og síðan ekið burt. Bíllinn hefur nú staðið í stæðinu í rúma viku. Þá hefur VF haft spurnir af fleiri bílnum sem staðið hafa dögum saman á almenningsstæðum, t.d. við Kaskó.
„Þetta er furðulegt. Fólk er kannski búið að eyða hundruðum þúsunda í utanlandsferð en ætlar svo að spara sér 10 þúsund kallinn með því að skilja bílinn eftir einhvers staðar út í bæ í stað þess að láta geyma bílinn á sérstöku svæði þar sem eftirlit er með honum allan sólarhringinn,“ sagði íbúinn í samtali við VF. Hann íhugar að láta draga bílinn í burtu, enda sé hann í óleyfi inni á einkalóð. Það kemur því væntanlega til með að hafa með sér mikinn kostnaðarauka fyrir flugfarþeganna þegar þeir þurfa að leysa bílinn út við heimkomuna. Jafnvel meiri kostnað en ella hefði bílinn verið geymdur í skjóli þeirra sem bjóða slíka þjónustu.
Mynd: Þessum gráa bíl var komið fyrir á bílastæði við Heiðarenda fyrir rúmri viku. Fólkið tók ferðatöskurnar sínar, læsti bílnum og fór með annari bifreið upp í flugstöð og til útlanda. Enginn í húsinu kannast við að þekkja eigendur bílsins né hafa heimilað það að bíllinn yrði geymdur við húsið.