Flugeldasalan glimrandi góð
Björgunarsveitarfólk í Björgunarsveitinnni Suðurnes er mjög ánægt með hvernig flugeldasalan hefur gengið fyrir þessi áramót. Vel var gengið á birgðir í dag og margir keyptu hraustlega af flugeldum og styrktu björgunarsveitina í sinni stærstu fjáröflun þetta árið.
Sömu sögu er að segja af flugeldasölu Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Þar á bæ voru menn glaðir með góðar viðtökur og sagði Ólafur Bjarnason flugeldasali að salan væri framar vonum þetta árið.
Það mun einnig viðra vel til þess að skjóta upp í kvöld. Fólk þarf að hafa traustar undirstöður fyrir flugeldana og að sjálfsögðu eiga allir að vera með hlífðargleraugu.
Aðrar björgunarsveitir á Suðurnesjum bera sig einnig vel og segja að salan hafi verið svipuð og jafnvel ívið meiri nú en í fyrra.
Myndir teknar í flugeldamarkaði Björgunarsveitarinnar Suðurnes um miðjan dag. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson