Flugeldar Björgunarsveitarinnar Suðurnes á öruggum stað
Flugeldarnir sem sprungu í brunanum í Njarðvík í nótt voru ekki á vegum Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Að sögn Gunnars Stefánssonar formanns sveitarinnar eru gerðar miklar kröfur til sveitarinnar um geymslu flugelda. Birgðir sveitarinnar eru geymdar í öruggri læstri sprengiefnageymslu. Gunnar sagði að honum hafi borist þónokkrar hringingar vegna málsins í nótt, þar sem orðrómur væri um að flugeldarnir væru birgðir frá Björgunarsveitinni Suðurnes. Svo mun ekki vera og eru flugeldar Björgunarsveitarinnar Suðurnes öruggir.
Myndin: Frá vettvangi brunans í nótt. Flugeldar sprungu með tilþrifum og vöktu fjölmarga íbúa Njarðvíkur.
Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson