Flugdólgur ólaður niður
Óskað var aðstoðar lögreglunnar á Suðurnesjum á föstudagsmorguninn sl. vegna órólegs farþega um borð í flugvél sem var að koma inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli. Maðurinn hafði verið áberandi ölvaður og dónalegur, allt frá flugtaki vélarinnar í Toronto. Hann hafði meðal annars í hótunum við áhafnarmeðlimi í fluginu og að lokum sá áhöfnin sér ekki annað fært en að yfirbuga hann og óla niður í sætið. Hann var handtekinn vegna brots á loftferðalögum og færður á lögreglustöð.