Flugbúðir fyrir unglinga í sumar
Flugakademía Keilis á Ásbrú býður í júlí upp á flugbúðir fyrir unglinga að erlendri fyrirmynd. „Þetta er allt að smella hjá okkur“ segir Magnús Ágústsson umsjónarmaður flugbúðanna sem er jafnframt starfandi flugkennari hjá Keili.
„Við erum búin að setja saman dúndurspennandi dagskrá, stútfulla af áhugaverðum flugtengdum viðfangsefnum. Þetta er sett upp sem fjögurra daga námskeið fyrir unglinga á aldrinum 13 – 16 ára. Við verðum í húsnæði Keilis á morgnana, nemendurnir fá innsýn inn í öll helstu fögin sem tengjast fluginu og hingað koma líka góðir gestir. Svo stefnum við á að fara í vettvangsferðir eftir hádegið alla dagana og oftar en ekki munum við heimsækja staði sem hinn almenni borgari fær aldrei að sjá.“
Flugakademía Keilis býður upp á margar námsleiðir, þar er hægt að læra einkaflug, atvinnuflug, flugumferðastjórn, flugþjónustu og nýjasta námsbrautin er flugvirkjun sem hefst í haust. Flugbúðirnar eru því skemmtileg viðbót við þá öflugu starfsemi sem þar fer fram og hefur aðsóknin á sumarnámskeiðið verið framar björtustu vonum. Í hverju ætli það liggi?
„Það er einfalt. Við ætlum einfaldlega að fleyta rjómann af öllu því mest spennandi sem tengist flugi og því ættu allir þeir sem hafa vott af áhuga á flugi ekki að láta þetta framhjá sér fara,“ segir Magnús. „Rúsínan í pylsuendanum er svo auðvitað síðasta daginn, en þá fá allir nemendur að fara í kynningarflug með flugkennara. Það er upplifun sem marga dreymir um.“
Flugbúðirnar verða haldnar í fyrsta sinn vikuna 8. – 11. Júlí. Nánari upplýsingar og skráning fer fram á www.keilir.net/sumarskoli