Flugbrautarframkvæmdir senda þoturnar yfir Njarðvík
- talsvert kvartað yfir hávaða frá flugi þeirra yfir byggð
„Ástæður þess að íbúar hér á svæðinu verða meira varir við flugvélarnar nú en áður er annars vegar vegna fjölda og hins vegar vegna þeirrar staðreyndar að enn er unnið að viðhaldsframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli en það aftur veldur því að flugtak til austurs yfir byggðina í Njarðvík er oftar en æskilegt hefði verið,“ segir Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar, í samtali við Víkurfréttir vegna kvartana íbúa svæðisins út af hávaða frá þotunum.
Þrettán F-15 orrustuþotur flugdeildar Bandaríska flughersins sinna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins og um 270 liðsmenn sem að hluta til búa á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og á hótelum utan öryggissvæðisins. Þetta er stærri hópur en er hér að jafnaði en ekki þó sá stærsti.
Að sögn Jóns er umferð um Keflavíkurflugvöll orðin stöðug allt árið og mun væntanlega bara aukast enda Keflavíkurflugvöllur mikilvægur alþjóðaflugvöllur út frá staðsetningu og þeirri staðreynda að hann er ekki bara borgarlegur flugvöllur. „Um hann fara reglulega herflugvélar alla daga ársins og er flugvöllurinn í því sambandi mikilvægur fyrir varnarhagsmuni Íslands, Atlantshafsbandalagið, samstarfið innan bandalagsins og til framkvæmdar varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Hér vil ég benda á að Isavia hefur tekist mjög vel að samræma viðhaldsframkvæmdirnar og fluguferðina sem nú er í hámarki.
Áætlað er að þær flugvélar sem eru á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli fari frá Keflavíkurflugvelli 23. ágúst. Til hávaðamildunar er almennt bara flug á virkum dögum og ekki fyrr en um kl. 10:00 og síðan aftur síðdegis nema á föstudögum en þá er bara morgunflug. Í þessu sambandi leggjum við áherslu á gott samstarf við þær flugsveitir sem hér dvelja og Isavia um framkvæmdina en í sumar eru takmarkanir vegna viðhaldsframkvæmda við flug- og akstursbrautir á Keflavíkurflugvelli og sem hefur þessi áhrif.“
Í samvinnu við LHG og Isavia eru erlendir sérfræðingar á sviði hávaðamildunaraðgerða að vinna fyrir greiningu á málinu og nýja flugtaksferla fyrir herflugvélar. „Er það von okkar að það verði til þessa að draga úr hávaða hér á svæðinu við Keflavíkurflugvöll,“ sagði Jón.