Flugaskan til Noregs og umtalsverð lækkun skulda
- gjaldfrjálsir umhverfisdagar kostuðu 8-10 milljónir
Lausn á flugöskumálum var stærsta einstaka málið í rekstri Kölku, Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, á síðasta ári. Flugaskan hefur verið vandamál stöðvarinnar í heilan áratug en lausn hefur nú verið fundin á förgun öskunnar með samningi við norska fyrirtækið Noah. Aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja var haldinn í síðustu viku. Þar kom fram að mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri fyrirtækisins til betri vegar.
Flugaskan til Noregs
Kostnaður við að farga öskunni sem hefur safnast upp sl. 10 ár er á bilinu 140-150 milljónir króna, sem þýðir um 14-15 milljónir króna á ári. Flugöskunni er safnað saman í reykhreinsibúnaði sorpeyðingarstöðvarinnar en notaður er sérstakur sóti, ekki ósvipaður matarsóda, en árlegur kostnaður við hann er nærri þrjátíu milljónum króna. Samtals höfðu um 4000 tonn af flugösku safnast upp hjá fyrirtækinu á síðustu 10 árum en askan var geymd á sekkjum í geymsluhúsnæði í Garði, Sandgerði, á athafnasvæði gömlu sorpeyðingarstöðvarinnar við Hafnaveg og einnig í Helguvík. Fyrr í sumar kom skip frá Noah og sótti stærstan hluta öskunnar. Skipið er svo væntanlegt aftur um miðjan september til að sækja restina. Askan er meðhöndluð þar og síðan komið fyrir ofan í gömlum kalksteinsnámum á eyju í firði inn af Oslóarfirði í Noregi. Nú standa yfir samningaviðræður við norska fyrirtækið um að taka við þeirri ösku sem fellur til í framtíðinni. Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, segir að þær viðræður gangi vel.
Eina sorpbrennslustöð landsins
Kalka er eina sorpbrennslustöðin á landinu en Jón vill þó ekki meina að sorpbrennslustöðin sé tímaskekkja því stefnan í landinu sé að auka flokkun og endurvinnslu, draga úr urðun og auka brennslu. Jón segir þó að á næstu árum muni rekstur Kölku örugglega breytast. Hugsanlega komi nýir aðilar að rekstri stöðvarinnar og þá úr hópi þeirra sem þurfa að nýta sér brennslu sorps. Yfirvöld í landinu segja að það þurfi að vera a.m.k. ein sorpbrennsla í landinu til að eyða úrgangi sem krafa er um að brenna, eins og spilliefni og sóttmengaður úrgangur. Jón sér því jafnvel fyrir sér aðkomu ríkisins og fleiri aðila að sorpbrennslunni.
Jón segir jafnframt að í dag sé kallað eftir aukinni endurvinnslu og þá búa heimili á Suðurnesjum við þá staðreynd að íbúar höfuðborgarsvæðisins borga helmingi minna fyrir sorphirðu og sorpeyðingu. Menn geti velt upp spurningum um hvort skynsamlegt sé að breyta rekstrarformi Kölku í hlutafélag, hvort sameinast eigi Sorpu. Framtíðin gæti orðið sú að íbúar á Suðurnesjum flokki sitt sorp. Það sem ekki fari til endurvinnslu yrði hins vegar baggað á Suðurnesjum og urðað á höfuðborgarsvæðinu. Kalka fengi þá annað hlutverk. Hún gæti stækkað og séð um brennslu á öllu því sorpi sem þarf að brenna hér á landi.
Heimilissorp úr Vestmannaeyjum í Kölku
Nýir viðskiptavinir hafa komið til sögunnar og auk þess að brenna öllu heimilissorpi á Suðurnesjum, þá brennir stöðin í Helguvík einnig nær öllu heimilissorpi frá Vestmannaeyjum. Einnig kemur mikið af sorpi til eyðingar frá gámaþjónustufyrirtækjum af höfuðborgarsvæðinu. Þá kemur allur sóttmengaður úrgangur, t.d. frá sjúkrahúsum og spilliefni til eyðingar í Kölku. Afkastageta Kölku er brennsla á 12.500 tonnum á ári en á síðasta ári brenndi stöðin tæpum 11.000 tonnum.
Tekið á skuldavanda
Árið 2010 skuldaði Sorpeyðingarstöð Suðurnesja 1.350 milljónir króna og staða eigin fjár var neikvæð um 600 milljónir króna. Sameiginleg ábyrgð sveitarfélaganna kom í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækisins.Eftir yfirgripsmiklar samningaviðræður við Íslandsbanka, sem er viðskiptabanki fyrirtækisins, hafa langtímalán fyrirtækisins lækkað um 500 milljónir króna á síðustu fjórum árum og segir Jón Norðfjörð að sannarlega munu þessar lækkanir á lánastöðunni skipta sköpum hvað varðar rekstrarhæfi fyrirtækisins til framtíðar. Þá hefur fyrirtækið einnig greitt upp yfirdrátt upp á 178 milljónir króna þannig að rekstur fyrirtækisins er allt annar í dag en hann var fyrir aðeins fáeinum árum.
Fyrirbyggjandi viðhald
Kalka er 10 ára um þessar mundir. Það mæðir mikið á búnaði stöðvarinnar við sorpbrennsluna. Þannig er hitinn í brennsluofninum um 600 gráður og þær gufur og gastegundir sem koma frá ofninum fara í gegnum eftirbrennslu sem er um 1100 gráðu heit. Að sögn Jóns er nú lögð áhersla á fyrirbyggjandi viðhald við brennslulínuna, enda er hún hjartað í sorpeyðingarstöðinni. Þannig er fylgst vel með brennslulínunni, steypt er í brennsluofninn á hverju ári og allt tölvukerfi brennslunnar var endurnýjað á síðasta ári en það var orðið um 10 ára gamalt. Brunakerfi í brennslustöðinni var endurnýjað og einnig öryggismyndavélakerfið.
Gjaldtaka skiptir sköpum fyrir Kölku
Jón segir að gjaldtaka á gámaplönum skipti sköpum fyrir rekstur Kölku og hann segist hafa orðið undrandi á þeirri tillögu sem kom fram í Reykjanesbæ á sínum tíma þar sem lagt var til að gjaldtökunni yrði hætt. Á aðalfundi Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja á dögunum tók Jón umræðu um hvert fyrirtækið vildi stefna í gjaldtökumálum. Hann fór yfir hvernig gjaldtökumálum var háttað áður og sagði frá hverju hefur verið breytt og af hverju.
Sorpgjöld sem lögð eru á íbúðaeigendur á Suðurnesjum hafa þróast í að verða með þeim hæstu hér á landi. Núverandi stjórnendur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja hafa talið þetta algjörlega óásættanlegt og lagt mikla áherslu á að breyta þessu.
„Við skoðun á rekstri fyrirtækisins aftur í tímann kemur í ljós að þegar rekstrarvandinn jókst voru sorpgjöldin hækkuð. Það var hin auðvelda leið að fara. Viðskiptaaðilum fyrirtækisins var verulega mismunað með verðlagningu á þann hátt að mun meiri hækkanirnar voru lagðar á íbúðaeigendur en fyrirtækin. Segja má að þannig hafa íbúðaeigendur verið látnir taka mun stærri þátt í að niðurgreiða taprekstur fyrirtækisins. Það er alveg augljóst að sú leið sem farin var þjónaði alls ekki hagsmunum fyrirtækisins og það er einnig alveg augljóst að þessi leið sem farin var þjónaði alls ekki hagsmunum íbúanna,“ sagði Jón á aðalfundinum.
Gjöldin hækkuðu um 91% á sex árum
Á sex ára tímabili á árunum 2006 til og með 2011 hækkuðu sorpgjöldin á Suðurnesjum sem hér segir: Sorpgjöld á íbúa innheimt með fasteignagjöldum hækkuðu um 91%. Á sama tímabili hækkaði gjaldskrá fyrir stofnanir og fyrirtæki aðeins um 37% og gjaldskrá fyrir spilliefni og sóttmengaðan úrgang, efni sem valda langmestum brennslukostnaði hækkaði aðeins um 30%.
„Nú hefur verið breytt um takt og þessum gjaldtökumálum algjörlega verið snúið við og á síðustu þremur árum, þ.e. frá 2012 til og með 2014 hefur þetta breyst umtalsvert og sorpgjöldin hækkað sem hér segir: Sorpgjöld innheimt með fasteignagjöldum hafa hækkað um 3%. Gjaldskrá fyrir stofnanir og fyrirtæki hefur hækkað um 23%. Gjaldskrá fyrir spilliefni og sóttmengaðan úrgang hefur hækkað að meðaltali um 55% á þessum þremur árum.
Með þessari miklu stefnubreytingu hefur á síðustu misserum orðið verulegur viðsnúningur í gjaldtökumálum fyrirtækisins eins og sjá má. Stefnan var sett á að verðleggja þjónustuna í sem mestu samræmi við þann kostnað sem úrgangsefni valda í brennslunni. Einnig hefur verið tekið tillit til þess að mikið magn berst til fyrirtækisins af óendurvinnanlegum úrgangsefnum sem við getum ekki brennt og verðum að láta flytja til Sorpu til urðunar. Allt veldur þetta mjög miklum kostnaði fyrir fyrirtækið og þess vegna skiptir öllu máli að verðleggja þjónustuna rétt, hafa góða yfirsýn á allri starfseminni og að hafa vel mótaðar vinnu- og umgengnisreglur sem viðskiptaaðilar fyrirtækisins þurfa að framfylgja,“ segir Jón og bætir við: „Það var einhver albesta ákvörðun sem við höfum tekið í gjaldtökumálum var að taka upp gjaldskyldu á gámaplönum fyrirtækisins“.
Greiddu ekkert fyrir 1000 tonn á ári
Jón segir í samtali við Víkurfréttir að áður en gjaldtakan var tekin upp komu 800 til 1000 tonn á ári af gjaldskyldum úrgangi á gámaplönin m.a. frá fyrirtækjum og minni rekstraraðilum sem engin greiðsla fékkst fyrir. Miðað við gjaldskrá nú eru þetta tekjur upp á um 16 til 18 milljónir króna á ári. Auk þess innheimtast 4 til 5 milljónir króna á ári af einstaklingum fyrir greiðsluskyldan úrgang.
„Með ákvörðun um gjaldtöku á gámaplönum hefur þannig tekist að koma í veg fyrir að fyrirtækjum sé gróflega mismunað og einnig er nú tryggt að ákvæðum samþykkta um meðhöndlun úrgangs á Suðurnesjum er mun betur framfylgt. Fullyrða má að settar reglur og gjaldtaka á gámaplönum hafi einnig átt hvað stærstan þátt í að stöðva þá slæmu stefnu sem leiddi af sér gengdarlausar hækkanir sorpgjalda á íbúðaeigendur. Meðal annars þess vegna hefur ekki þurft að hækka sorpgjöld á íbúana um meira en 3% á síðastliðnum þremur árum eins og fram kom hér áður. Með sama aðhaldi og góðum skilningi fyrir því að hafa stefnuna í gjaldtökumálum Kölku eins og hér hefur verið lýst, er það von mín að sorpgjöld á fasteignaeigendur geti haldist óbreytt áfram árið 2015. Ég segi þetta þó með smá fyrirvara,“ segir Jón.
Fyrstu sex mánuði þessa árs hafa að meðaltali komið um 1500 aðilar á gámaplönin í hverjum mánuði. Af þessum 1500 aðilum koma um 80% eða um 1200 aðilar með gjaldfrjálsan úrgang og greiða þ.a.l. ekkert gjald. Af þeim 20% þ.e. 300 aðilum sem koma með gjaldskyldan úrgang, eru um 65% eða um 200 aðilar sem greiða lágmarksgjald kr. 875. Það eru því aðeins um 100 aðilar þ.e. um 7% þeirra sem koma á gámaplönin í hverjum mánuði sem greiða meira en lágmarksgjald. Sumir þessara aðila eru rekstraraðilar sem koma með úrgang sinn utan opnunartíma fyrir móttöku úrgangs frá fyrirtækjum. Af þessu má sjá að gjaldtaka á gámaplönum Kölku er sannarlega ekki fjárhagslega íþyngjandi fyrir íbúa á Suðurnesjum.
340 tonn á tveimur dögum
Í vor var ráðist í hreinsunarátak á Suðurnesjum þar sem boðið var upp á tvo gjaldfrjálsa daga hjá Kölku fyrir heimilin á svæðinu. Á þessum tveimur dögum bárust samtals 340 tonn af rusli en mjög stór hluti af því var timburúrgangur. Þegar horft er í hauginn sem barst má glögglega sjá að stór hluti af þessum 340 tonnum hefur alls ekki verið rusl frá heimilum eða það sem safnast hefur fyrir í bílskúrum og geymslum. Þá var stór hluti af ruslinu þannig að það fer ekki til brennslu hjá Kölku, heldur þarf að fara til förgunar á annan hátt. Kostnaður Kölku vegna þessa umhverfisátaks er áætlaður um 8-10 milljónir króna. Jón Norðfjörð segir ljóst að hreinsunarátak sem þetta þurfi að vinna með öðrum hætti, því stór hluti af ruslinu sem safnaðist sé í raun frá atvinnustarfsemi og ætti að vera gjaldskylt.
Texti: Hilmar Bragi Bárðarson
Flutningaskipið með flugöskuna siglir fyrir Garðskaga á fallegu sumarkvöldi.
Fjórir af starfsmönnum Kölku í Helguvík. Frá vinstri: Ingþór Karlsson, Loftur Sigvaldason, Axel Þórisson og Jón Norðfjörð.