Flugafgreiðslumenn fundu fyrir óþægindum vegna eiturefna
Flugafgreiðslumenn á Keflavíkurflugvelli fundu fyrir óþægindum vegna eiturefna sem helltust niður í flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli og köstuðu upp. Hins vegar urðu farþegar ekki fyrir óþægindum.
Flugvélin átti að fara til Lundúna kl. 08 í morgun en brottför var frestað vegna lekans í farangursrými vélarinnar. Lögregla girti vélina af og eiturefnateymi Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli var kallað út og var unnið að því fram eftir morgni að hreinsa upp efnið.
Um var að ræða skordýraeitur sem verið var að flytja frá framleiðanda í Minneapolis og átti það að fara áfram til Parísar, að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafulltrúa Icelandair í samtali við Morgunblaðið á Netinu í morgun.
„Það gilda ákveðnar reglur um hvernig á að bregðast við í slíkum tilfellum, og sú atburðarás var sett í gang. Það er kallað á lögreglu, slökkvilið, eiturefnateymi kemur að þessu auk þess sem þeir sem hugsanlega gátu hafa komist í snertingu við efnið voru sendir í læknisskoðun.“ Guðjón sagði í samtali við Morgunblaðið að það hafi verið gert og í ljós hafi komið að ekkert amaði að þeim.
Mjög strangar reglur gilda um flutninga á efnum sem þessum. Ekki sé vitað af hvaða ástæðum það hafi lekið niður, en málið verði rannsakað.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson