Flugafgreiðslufólk flytur á Garðvang
80 erlendir starfsmenn Icelandair Ground Services (IGS), systurfyrirtækis Icelandair, munu setjast að í Garðinum síðar á þessu ári. Nú er unnið að endurbótum á Garðvangi, sem áður var hjúkrunarheimili, til að koma starfsfólkinu fyrir.
Gunnar S. Olsen, framkvæmdastjóri IGS, staðfestir í samtali við Fréttablaðið í dag að unnið sé hörðum höndum við að gera húsnæðið tilbúið í tíma.
„Þarna eru töluvert af herbergjum sem verið er að laga fyrir okkur. Snyrta til, mála og gera vistlegt. Svo leigjum við þetta til okkar fólks sem kemur í vor,“ segir Gunnar og bætir við að mögulegt verði að leigja allt að 80 starfsmönnum, bæði sem einstaklingsherbergi og fyrir þá sem kjósa að deila herbergi.
„Við erum að ráða erlenda starfsmenn í nánast hverja einustu deild hjá okkur; hlaðmenn, í ræstingar, innritun, flugeldhúsi og lagerstarfsmenn,“ segir Gunnar og bætir við að ráðnir hafa verið 220 erlendir starfsmenn sem bætast í stóran hóp Íslendinga sem verða örugglega um 400 talsins sem koma til starfa á sama tíma.
IGS keypti nýverið þrjár blokkir á Ásbrú í Reykjanesbæ en það dugar ekki til og nú eru húsnæðismál erlends vinnuafls stöðugt úrlausnarefni fyrirtækja vegna fjölgunar starfa á Keflavíkurflugvelli.
Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Nesfiskur keypti Garðvang nýverið og áframleigir bygginguna til IGS.