Flóttalegur stal bílnúmeri
Tilkynning barst lögreglunni á Suðurnesjum í gær þess efnis að flóttalegur karlmaður væri að sniglast á bifreiðastæði í umdæminu og rjátla við skráningarnúmer á bifreiðum þar. Hann hefði náð númeraplötu af einni þeirra og látið sig síðan hverfa. Lögreglan, sem hafði skömmu síðar afskipti af manni þar sem hann ók sviptur ökuréttindum, ákvað að orða númerastuldinn við hann.
Ökuþórinn viðurkenndi þá að hafa stolið umræddu skráningarnúmeri, en gaf vægast sagt ótrúverðugar skýringar á ástæðunni fyrir stuldinum. Þegar lögreglan athugaði málið nánar kom í ljós að maðurinn var eftirlýstur ofan á allt annað.