Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Flóttafólk til Grindavíkur?
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 26. október 2022 kl. 13:27

Flóttafólk til Grindavíkur?

Grindavíkurbæ hefur borist erindi frá Vinnumálastofnun, sem sér um málefni útlendinga, m.a. flóttafólks. Óskar stofnunin eftir því að gera þjónustusamning við Grindavíkurbæ varðandi að taka á móti 80 flóttamönnum, mest frá Úkraínu og Venesúela.  Samkvæmt upplýsingum VF er eingöngu um karlmenn að ræða.

Samningaviðræður ríkisins standa yfir við eigendur Víkurbrautar 58. Þar hefur hótel verið rekið allar götur síðan Festi var breytt í hótel árið 2012. Nú síðast var hótelið rekið undir nafninu Volcano hotel, en vegna myglu þurfti að loka hótelinu. Endurbætur standa yfir, búið er að laga húsnæðið að utan og eins og meðfylgjandi myndir sýna þá er unnið að því að losna við sjálfa mygluna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarráð Grindavíkur mun taka erindið fyrir í næstu viku. Þrjú sveitarfélög hafa gert slíka þjónustusamninga við Vinnumálastofnun, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Akureyri.

Flest öll sveitarfélög á landinu hafa fengið svona bréf frá Vinnumálastofnun að undanförnu, en þó virðist það ekki skipta öllu máli því t.d. hefur ríkið tekið Kumbaravog á Stokkseyri á leigu, án þess að samráð hafi verið haft við sveitarfélagið Árborg. Bæjarráð Árborgar hefur fjallað um málið og telur staðsetninguna óheppilega með vísan til þjónustu á svæðinu.

Mikil umræða hefur verið í Reykjanesbæ um þessi málefni, en þar var gerður samningur um móttöku 270 flóttamanna en samt eru rúmlega 500 flóttamenn komnir á svæðið.

Ef sami póll verður tekinn í hæðina varðandi Víkurbraut 58 í Grindavík, er ljóst að 80 flóttamenn munu flytja til Grindavíkur og verða á framfæri ríkisins í átta vikur, á meðan beðið er úrlausnar viðkomandi aðila. Ef flóttamaður uppfyllir skilyrði um vernd, þá mun hann búa áfram á Íslandi og til að byrja með og vera á framfæri Grindavíkurbæjar þar til hann er kominn með vinnu.





Unnið er að því að þrífa myglu úr húsnæðinu í Grindavík. VF-myndir: Sigurbjörn Daði