Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Flokkun sorps fer vel af stað á Suðurnesjum
Davor Lucic
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 11. ágúst 2023 kl. 07:35

Flokkun sorps fer vel af stað á Suðurnesjum

Eins og Suðurnesjafólk veit hafa sorphirðumál tekið talsverðum breytingum en nú þarf lögum samkvæmt að flokka sorpið í fjóra flokka; matarleifar, plastumbúðir, pappír og pappa, og blandaðan úrgang. Sumir höfðu áhyggjur af framkvæmdinni og einhver óánægjuskrif hafa sést á samfélagsmiðlum. Það er Kalka sem sér um sorphirðumál á Suðurnesjum, Davor Lucic er rekstrarstjóri sorphirðu og móttökuplana hjá fyrirtækinu. 

Davor er ánægður með hvernig verkefnið hefur farið af stað. „Það var byrjað að dreifa nýju sorptunnunum um miðjan maí í Grindavík, svo fórum við í Suðurnesjabæ og verkefninu lauk svo í Reykjanesbæ 25. júlí. Það voru björgunarsveitirnar Þorbjörn í Grindavík, Skyggnir í Vogum, Sigurvon í Sandgerði og Ægir í Garði sem sáu um dreifinguna, við vorum mjög ánægð með samstarfið og ég vil koma á framfæri kærum þökkum til þessa aðila. Við gerðum ráð fyrir að dreifingunni yrði lokið í byrjun ágúst svo við getum verið mjög ánægð með hvað þetta tók stuttan tíma, það má líka ekki gleyma að björgunarsveitirnar fengu verkefni í kringum eldgosið á sama tíma.

Mín tilfinning er að þetta hafi gengið mjög vel, ég hef verið mikið í samskiptum við fólk, bæði í síma og í tölvupósti og ég get ekki sagt annað en þetta fari vel af stað. Fólk hefur verið að hafa samband til að fá leiðbeiningar um flokkun og langflestir eru mjög jákvæðir en við vitum að alltaf er fólk inn á milli sem er neikvætt, þau eru kannski bara ekki nógu vel upplýst. Kalka auglýsti þetta mjög vel, við fengum íþróttafélögin í sveitarfélögunum til að dreifa bæklingum inn á öll heimili svo það ættu allir að vera vel upplýstir. Fyrstu tölur úr flokkuninni gefa til kynna að verkefnið fari mjög vel af stað, t.d. hefur flokkun á lífrænum úrgangi komið mjög vel út, fólki hefur fundist vera meira af pappa og plasti en það er ekki að marka því áður fór þetta saman í eina tunnu. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er búinn að vera í eins árs undirbúningsvinnu með þetta verkefni og verð að segja að ég er ánægður með hve flestir eru jákvæðir. Mér finnst t.d. gaman að segja frá fólki í fjölbýlishúsum, sumir þurfa að labba nokkrar hæðir í stað þess að henda ruslinu bara í rennulúguna en fólk er að loka þessum lúgum og nýta þá plássið niðri sem var ruslageymsla, í öðruvísi geymslurými núna sem verður þá miklu snyrtilegra,“ sagði Davor að lokum.