Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Flokkun fer vel af stað en matarleifar eyðileggja endurvinnsluefni
Matarleifar í endurvinnslutunnunni koma í veg fyrir að hægt sé að taka innihald hennar til endurvinnslu.
Mánudagur 15. október 2018 kl. 09:48

Flokkun fer vel af stað en matarleifar eyðileggja endurvinnsluefni

Flokkun úrgangs við heimili á Suðurnesjum hefur farið nokkuð vel á stað. Hlutfall endurvinnsluefnis af heildarmagni úrgangs er nú um 26% sem er nokkuð gott svona í byrjun, en meðaltalsreynslan annars staðar er um 30%, segir Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri Kölku sorpeyðingarstöðvar sf., í færslu á fésbókinni.
 
Jón segir að byrjunarvandamálin séu helst þau að aðeins hefur borið á því að fólk setji matarleifar og almennt rusl í grænu tunnuna. Til dæmis hafa sést pizzukassar með pizzuafgöngum og fullum sósudollum. 
 
„Þegar svona gerist þá mengar það út frá sér og eyðileggur hluta af endurvinnsluefninu,“ segir Jón í færslunni. Einnig hafa sést snjósleðar, þríhjól, og minni raftæki. „Svona dót á alls ekki að fara í grænu tunnuna“.
 
Jón hvetur fólk til að vanda sig við flokkunina og fara nákvæmlega eftir leiðbeiningunum sem sendar voru inn á öll heimili.
 
En hvað verður um það sem kemur úr endurvinnslutunnunni? Í samtali við Víkurfréttir sagði Jón Norðfjörð að það efni sé losað úr bílum í Kölku í Helguvík þar sem efninu sé pakkað í gáma sem síðan séu fluttir til móttökustöðvar í Hafnarfirði til frekari úrvinnslu.

 
Þetta á ekki heima í endurvinnslutunnunni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024