Flísar & Gólf opnar verslun í Reykjanesbæ
Ný þjónustuverslun, Flísar & Gólf, hefur opnað að Iðavöllum 7 í Reykjanesbæ. Eigendur verslunarinnar eru hjónin Ármann Jóhannsson og Linda Sigurgeirsdóttir, en Ármann er Suðurnesjamönnum vel kunnur eftir 15 ár við sölu og ráðgjöf gólfefna.
„Ég legg áherslu á að vera með persónulega þjónustu og ráðgjöf,“ sagði Ármann í samtali við Víkurfréttir. „Það hefur enginn verið að bjóða slíkt hér á svæðinu, en nú munum við mæta þeirri eftirspurn og veita einstaklingum og fyrirtækjum gæðaþjónustu.“
Í versluninni má finna gæðavörur frá þekktum framleiðendum á sviði gólfefna, t.d. Porcelanosa, Venis, Imola og Marazzi flísar frá Álfaborg, flísafylgiefni og spörtl frá Deitermann, parket frá Berry floor og Baltic floor, stigahúsateppi, sísalteppi, heimilisteppi, mottur, dregla o.fl. Einnig munu Flísar & Gólf vera með þekkta gólfdúka frá Forbo, Marmoleum gólfdúka unna úr náttúrulegum efnum, vínyldúka fyrir heimili, stofnanir og verslanir og mottur frá Akta/Persíu.
Þá er verslunin í góðu sambandi við fagmenn til þess að vinna úr þeim efnum sem í boði eru sé þess óskað.
Verslunin er opin alla virka daga frá kl. 8-12 og 13-18 og laugardaga frá kl. 9-13. Frekari upplýsingar má fá í síma 421-7090.