Flestir í fimm mínútur gegnum öryggisleit Keflavíkurflugvallar
89% farþega Keflavíkurflugvallar í júní biðu í röð við öryggisleit í fimm mínútur eða skemur og um 98% farþega biðu í minna en tíu mínútur. Þessar upplýsingar eru fengnar úr sérstöku kerfi sem fylgist með biðtíma farþega á flugvellinum. Túristi greinir frá þessu.
Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar, segir að þessi frábæri árangur hafi náðst með því að taka í notkun fullkomnari tækjabúnað, endurskipulagi á vinnubrögðum og fjölgun starfsfólks. Þá segir hann sérstaklega ánægjulegt hvað vel hafi gengið að ráða inn nýtt starfsfólk og hversu hratt það hafi náð að tileinka sér fagleg og góð vinnubrögð.
í júnímánuði fóru um Keflavíkurflugvöll 280.000 brottfararfarþegar og er mánuðurinn þar með þriðji stærsti mánuðurinn á Keflavíkurflugvelli frá upphafi, á eftir júlí og ágúst 2016.