Flest tækifærin – mesta atvinnuleysið
„Stemmningin fyrir fundinum er mjög góð, bæði meðal atvinnurekenda og almennings,“ segir Halldór Ragnarsson, einn eiganda Húsaness og stjórnarmaður í SAR, um opinn borgarafund sem haldinn verður á morgun í Stapa vegna þeirrar stöðu sem atvinnumálin á Suðurnesjum eru í.
SAR eða Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi boða til fundarins annað kvöld, fimmtudaginn 7. október kl. 16:30. Vegna tímasetningarinnar hafa atvinnurekendur á svæðinu verið hvattir til að gefa starfsfólki sínu frí til þess að það geti setið fundinn.
„Fólk finnur að það er löngu tímabært að við stöndum saman og knýjum á um að hlutirnir fari í gang. Fólk verður að standa þétt saman núna,“ sagði Halldór. Aðspurður segist hann aldrei hafa séð eins dapurt ástand á svæðinu í þau 32 ár sem hann hefur verið í atvinnurekstri.
„Það er dapurlegt að ástandið hér á Suðurnesjum skuli vera eins og það er með öll þessi tækifæri í túnfætinum og ekkert þeirra skuli ná fram að ganga. Hér eru flest tækifærin en mesta atvinnuleysið. Þetta er alveg með ólíkindum,“ sagði Halldór.
Halldór segir orsakana að leita víðar en hjá ríkisvaldinu eingöngu. Sveitarstjórnirnar á svæðinu og ríkisvaldið þurfi að vinna betur saman en hingað til. „Það er einmitt þema fundarins; að fólk leggi pólitík til hliðar, láti íbúa svæðisins njóta kraftanna, vinni af heilindum og komi málum áfram,“ segir Halldór og bendir á að slagorð fundarins sé einmitt Ákall um samstöðu. „Ég frábið mér allt tal um grátkór. Þvert á móti viljum við sækja fram og krafa SAR er einfaldlega sú að fólk fari að vinna vinnuna sína.“
Öllum 63 þingmönnum Alþingis hefur verið sent boð á fundinn. Framsöguræður munu flytja fulltrúar þeirra verkefna sem verið hafa í umræðunni og munu þeir greina frá stöðu mála frá sinni hlið. Á fundinum verður ekki umræða eða skoðanaskipti heldur er honum fyrst og fremst ætlað að vera upplýsandi um stöðu mála og efla samstöðu.