Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 17. apríl 2001 kl. 12:02

Flest dauðaslys við Njarðvík

Alls létust 52 í umferðarslysum á Reykjanesbraut frá árinu 1967 til ársins 2000. Þetta kemur fram í svari Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar um fjölda og orsakir umferðarslysa á Reykjanesbraut.

Flestir létust í fyrra eða 6 en frá árinu 1990 til ársins 2000 hafa 15 manns látist í umferðarslysum á veginum. Í svarinu kemur einnig fram að frá árinu 1967 hafa flest dauðaslys orðið við Njarðvík eða 8, næstflest á Strandarheiði eða 7 og 5 hafa látist við Kúagerði. Flest dauðaslysin urðu vegna áreksturs bíla eða 32 en 14 vegna bílveltna eða útafaksturs. Þá hafa 6 gangandi vegfarendur látið lífið í umferðarslysum á umræddu tímabili.

Karlmenn í miklum meirihluta
Karlmenn eru í miklum meirihluta þeirra sem látist hafa í umferðarslysum á Reykjanesbraut eða 33 talsins. En einnig hafa 16 konur og 3 börn látist í umferðarslysum á veginum.
Í svarinu kemur fram að árið 1992 hafi fyrst verið farið að skrá nákvæmlega upplýsingar um umferðarslys og óhöpp á Íslandi, þ.m.t. staðsetningar og orsakir. Mismunandi orsakir hafa verið fyrir þeim umferðarslysum þar sem fólk hefur slasast mikið, en á þessu 8 ára tímabili hafa 65 manns slasast alvarlega. Fimmtán slösuðust vegna gáleysis ökumanns, 13 vegna þess að hægri regla var ekki virt, 7 vegna ógætilegs framúraksturs og 7 vegna slæmrar færðar. Þá hafa 6 slasast alvarlega þegar ekið hefur verið gegn rauðu ljósi, 4 vegna þess að of stutt hafi verið á milli bíla og 3 vegna of hraðs aksturs. Af þeim 10 sem standa eftir slösuðust tveir vegna ölvunar við akstur, en aðrir vegna annarra orsaka.

Lagt til að sektir verði hækkaðar
Með gögnum frá Umferðarráði og Vegagerðinni er, í svari dómsmálaráðherra, slysatíðni á Reykjanesbraut borin saman við Suðurlandsveg, milli Reykjavíkur og Selfoss, og Vesturlandsveg, milli Reykjavíkur og Borgarness. Frá árinu 1992 til 1998 urðu 225 slys á Reykjanesbraut, 370 slys á Suðurlandsvegi og 278 slys á Vesturlandsvegi. Frá árinu 1979 til 1999 urðu 2.114 umferðaróhöpp á Reykjanesbraut miðað við 960 á Suðurlandsvegi og 1.926 á Vesturlandsvegi.
Í fyrirspurninni er spurt um áform löggæsluyfirvalda til að tryggja að virtar séu hraðatakmarkanir á Reykjanesbraut og hvort í því sambandi hafi verið rætt um notkun löggæslumyndavéla. Í svari ráðherra segir að nú þegar hafi verið komið á samstarfi milli lögreglustjóranna í Keflavík, á
Keflavíkurflugvelli og í Hafnarfirði um öflugt eftirlit á Reykjanesbraut. Þá segir að í undirbúningi sé að koma á samstarfi milli Vegagerðarinnar og ríkislögreglustjóra um aðgerðir til að ná niður umferðarhraða m.a. með fjölgun löggæslumyndavéla. Í svari ráðherra segir ennfremur að á
næstunni muni nefnd um endurskoðun umferðarlaga skila tillögum og að á meðal þess sem þar sé til umfjöllunar sé umtalsverð hækkun sekta. Lagt verði til að hluti af þeim fjármunum muni renna í sérstakan sjóð sem standa eigi undir aukinni umferðargæslu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024