Flensan reyndist vera krabbamein
Frank Bergmann Brynjarsson var að klára 7. bekk í Grunnskóla Grindavíkur með stæl. Hann fékk til dæmis 10 í stærðfræði og mjög góðar einkunnir í öðrum fögum. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema að Frank hefur stundað námið í gegnum fjarkennslu og notast við Skypemyndsíma. Þannig hefur hann getað fylgst með samnemendum sínum og kennara og þau með honum þar sem hann hefur verið á sjúkrahúsi í Lundi í Svíþjóð.
Frank hefur háð erfiða baráttu við krabbamein sem fyrst greindist í mars 2006. Núna, rúmum þremur árum síðar, er Frank Bergmann kominn heim til Grindavíkur til að safna kröftum að nýju eftir erfiðar aðgerðir.
Frank Bergmann er sonur þeirra Brynjars B. Péturssonar og Svanhildar Káradóttur, sem bæði eru kunnir nuddarar. Frank á einnig eldri bróður sem heitir Viktor Bergmann. Í mars 2006 var Frank fyrst greindur með krabbamein. Flensa sem hafði verið að hrjá strákinn í heilan mánuð reyndist vera hvítblæði af erfiðustu tegund fyrir börn. Frank er fyrsta barnið sem greinist með þessa tegund hvítblæðis, en þetta krabbamein greinist helst í eldra fólki. Þar er auðveldara að meðhöndla það með lyfjum en hjá börnum eru efnaskipti það hröð að venjuleg lyfjameðferð er ekki möguleg.
Frá því hvítblæðið uppgötvaðist í mars 2006 hefur Frank Bergmann gengið í gegnum erfitt tímabil, þar sem bæði hafa unnist stórir sigrar og eins að sama skapi hafa komið erfiðir dagar með sárum fréttum. Þannig hefur Frank fjórum sinnum fengið þá greiningu að krabbamein hafi tekið sig upp í líkama hans. Með jákvæðu hugarfari og kröftugum stuðningi fjölskyldu og vina hefur hann tekið allar þær orrustur og er nú kominn heim að safna kröftum.
Það að berjast við krabbamein kostar miklar fórnir og fyrir leikmann er erfitt að setja sig í spor drengs sem er níu ára þegar hann fær fyrst fréttir af því að hann sé með alvarlegan sjúkdóm og framundan séu margir mánuðir inni á sjúkrahúsi, erfiðar lyfjagjafir, sárir verkir og oft mikil vanlíðan þar sem líkamsstarfsemin er öll meira og minna í ólagi.
Frank Bergmann er búinn að eyða löngum stundum á Barnaspítala Hringsins og á sjúkrahúsum bæði í Stokkhólmi og Lundi í Svíþjóð. Samtals hefur hann dvalið í Svíþjóð í eitt ár á síðustu þremur árum. Úti í Svíþjóð gekkst hann undir mjög erfiðar aðgerðir þar sem skipt var um beinmerg í líkamanum. Í fyrstu beinmergsaðgerðinni fékk Frank merg frá Viktori stóra bróður sínum. Sú aðgerð var framkvæmd haustið 2006 en um vorið 2007 kom í ljós að aðgerðin hafði ekki heppnast sem skyldi og hvítblæðið hafði tekið sig upp að nýju. Þá tóku við lyfjagjafir og blóðgjafir að nýju og allt reynt til að vinna bug á hvítblæðinu.
Frá því Frank Bergmann greindist fyrst með þessa erfiðu tegund hvítblæðis fyrir börn hafa orðið umtalsverðar framfarir í meðferð sjúkdómsins. Þannig hafa allir helstu krabbameinslæknar í VesturEvrópu fylgst náið með sjúkrasögu drengsins frá Grindavík, því hann er fyrsta barnið til að undirgangast beinmergsskipti öðru sinni þar sem beitt var nýjustu tækni við mergskiptin. Þetta er í fyrsta skiptið sem þessi aðferð er notuð hjá börnum og þar notuðust læknar við beinmerg frá Svanhildi, móður Franks, sem ekki hefur verið gert áður. Háþróuð tæki og svokölluð nanotækni var beitt til að velja æskilegar frumur og hreinlega frumuhluta sem henta best til að vinna á hvítblæðinu. Aðgerðin var gríðarlega flókin, fjöldi lækna og meinafræðinga kom að henni. Öll nauðsynleg efni voru unnin úr blóði og merg Svanhildar og þeim síðan komið fyrir í líkama Franks eftir að ónæmiskerfi hans hafði verið gert óvirkt.
Svona aðgerðir ganga ekki þrautalaust fyrir sig og ennþá finnur Frank Bergmann fyrir lystarleysi og ógleði þegar kemur að því að borða mat. Hann þarf að taka fjölmörg lyf og mæta reglulega í rannsóknir á blóði og þess háttar. Frank finnur oft til þreytu en reynir eins og hann getur að rækta samband við vinina og er úti að leika sér með þeim, er duglegur að hreyfa sig og hjólar mikið.
Þau Svanhildur og Brynjar vildu koma á framfæri þakklæti til allra þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem stutt hafa við bakið á fjölskyldunni þessi rúmu þrjú ár sem Frank hefur átt í veikindum sínum. Einnig vildu þau færa starfsfólki Barnaspítala Hringsins þakkir.
STYRKTARREIKNINGUR
Þeir sem vilja styðja við bakið á Frank geta sýnt stuðning sinn í verki með að leggja inn á reikning hans í Landsbankanum í Grindavík.
Reikningurinn er 143 - 26 - 199
Kennitalan er 140996 - 3199