Fleiri störf skapist í flugstöðinni
- fyrir háskólamenntaða sérfræðinga
Með auknum straumi ferðamanna til Íslands eykst álagið á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Störfum í flugstöðinni fjölgar ár frá ári og innan veggja stöðvarinnar hefur einnig verið unnið að umfangsmiklum breytingum til að auðvelda allt flæði flugfarþega um flugstöðvarbygginguna.
Nú er fyrirliggjandi að stækka þarf flugstöðina á allra næstu árum. Endurskipulagning á aðstöðu og nýtingu mannvirkja og undirbúningur fyrir stækkun flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli á næstu árum krefst umtalsverðrar undirbúningsvinnu og hafa nokkrir sérfræðingar verið ráðnir að rekstrardeild flugstöðvarinnar til þess m.a. að sinna slíkum verkefnum, þ.m.t. þrír verkfræðingar, tveir byggingartæknifræðingar og tækniteiknari. Auk þeirra koma margir sérfræðingar í starfsliði Isavia að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins.
Gert er ráð fyrir að allmörg fleiri störf skapist í flugstöðinni fyrir háskólamenntaða sérfræðinga þegar dregur nær fyrirhuguðum framkvæmdum og þegar þær hefjast, t.d. við hönnun, eftirlit o.fl.
Tekið hefur verið í notkun fullkomið tölvuhermilíkan sem notað er til þess að rýna í og segja fyrir um flæði viðskiptavina í og við flugstöðina. Búnaðurinn auðveldar mjög alla áætlanagerð, t.d. varðandi áhrif breytinga sem unnið er að hverju sinni.
Verkfræðistofa Suðurnesja hefur starfað lengi fyrir Isavia og er virkur þátttakandi í þeirri undirbúningsvinnu sem unnin er í tengslum við fyrirhuguð framkvæmdaverkefni í flugstöðinni.
Í dag liggur ekki fyrir hvernig Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður stækkuð. Þó hallast menn helst að því í dag að stækka suðurbygginguna enn frekar. Einnig hafa komið fram hugmyndir um að auðvelda flæði milli norður- og suðurbyggingar með því að bæta einni hæð ofan á fingurinn á milli bygginganna. Fyrst og síðast þarf þó að fjölga flugvélastæðum sem tengst geta með landgöngum við flugstöðina. Þangað til það er gerlegt verður aðstaða til að flytja farþega í og úr flugvélum með rútum bætt.
Öflugt teymi vinnur að fyrirliggjandi stækkun stöðvarinnar. Í því eru Guðmundur Daði Rúnarsson rekstrarverkfræðingur sem er aðstoðarframkvæmdastjóri FLE. Daði er öllum hnútum kunnugur á flugvellinum en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri Iceland Express Handling sem annaðist innritun farþega í flugvélar Iceland Express og sem verkefnastjóri í upplýsinga- og tæknisviði félagsins.
Páll Svavar Pálsson byggingartæknifræðingur er verkefnastjóri fjárfestingaverkefna í FLE og situr í verkefnastjórn framkvæmda flugstöðvarinnar. Síðustu 15 ár starfaði Páll á Verkfræðistofu Suðurnesja og hefur reglulega komið að verkefnum í flugstöðinni sem verkefnastjóri eða við eftirlit.
Sævar Þór Ólafsson byggingarverkfræðingur er deildarstjóri eignaumsýslu. Hann starfaði hjá Línuhönnun á árunum 2001 til 2006 og var verkefnastjóri og síðar framkvæmdastjóri hjá Umtak, fasteignafélagi N1 með ábyrgð á öllum fasteignum þess umhverfis landið.
Jón Kolbeinn Guðjónsson er verkfræðingur sem m.a. hefur starfað hjá Verkfræðistofu Austurlands.
Maren Lind Másdóttir iðnverkfræðingur er verkefnastjóri farangurskerfa en hún hefur áður starfað hjá Norðuráli á Grundartanga.
Guðmundur Karl Gautason er rekstrarverkfræðingur hjá Rekstrardeild FLE.
Jóhanna Ellen Valgeirsdóttir tækniteiknari hjá Rekstrardeild FLE. Hún hefur starfað sem byggingarfræðingur og innanhússarkitekt.
Grétar Már Garðarsson viðskiptafræðingur er verkefnastjóri á þróunar- og stjórnunarsviði Isavia og annast verkefnastýringu, mat og þróun á viðskiptatækifærum hjá félaginu ásamt söfnun, greiningu og miðlun tölfræðiupplýsinga. Hann hefur áður starfað hjá fjárhagsdeild Íslandsbanka og á fjármálasviði Landspítala Háskólasjúkrahúss.