Fleiri Pólverjar í íslenskunámi og ekki á leiðinni heim - eru öruggir á Íslandi
„Þeir Pólverjar sem misstu vinnuna og voru flestir að vinna í flugstöðinni vilja nýta tímann og læra íslensku. Svo eru sumir sem vilja fá betri vinnu í framtíðinni og vilja alls ekki flytja aftur til Póllands. Þeir eru öryggir hér á Íslandi,“ segir Daria Luczków en hún hefur sinnt tungumálakennslu á veirutímum á netinu.
Að sögn Daríu hafa um 40 pólskir nemendur verið hjá henni að læra íslensku og svo eru líka margir sem læra ensku eða íslensku hjá öðrum kennara hjá Saga Akademía.
„Nemendur hafa mætt á Skype eða Zoom og flestir segjast vilja halda áfram að búa á Íslandi. Mér finnst svo kósý að vinna heima og ég sé líka að nemendur eru 100% einbeittir og margir segja vilja læra seinna bara í fjarkennslu. Þeim finnst það þægilegt.
Við erum líka að kenna krökkum pólsku sem móðurmálskennslu í Krakka Akademíunni og þeir eru líka að læra í gegnum Zoom. Pólskir foreldrar vilja frekar að börnin þeirra séu alltaf heima og hitta ekki annað fólk. Þannig að við byrjuðum að kenna þeim líka á netinu og það gengur mjög vel. Þau hittast einu sinni í viku á laugardögum og þeim finnst mjög spennandi að sitja fyrir framan tölvu, tala við kennarann, tala við aðra krakka og læra.
Ég ætla að byrja að kenna einkakennslu í skólanum frá 4. maí í aðstöðu okkar við Hafnargötu í Keflavík en hópar verða áfram á Skype eða Zoom,“ segir Daria sem er orðinn ráðsett á Suðurnesjum, á íslenskan eiginmann og saman eiga þau dóttur.