Fleiri hlynntir breytingum á deiliskipulagi
Fleiri íbúar eru hlynntir breytingum á deiliskipulagi í Helguvík en þeir sem eru á móti, þótt mjótt sé á munum. Alls 471 íbúi eða 50.4% er hlynntur breytingunni og þar með uppbyggingu kísilvers Thorsil ehf. Við Berghólabraut en 451 eð 48,3% á móti. 12 skiluðu auðu sem gera 1,3%. Kosningum lauk kl. 02:00 í nótt og var kosningaþátttaka 8,71%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ.
Rafrænar íbúakosningar um breytingar á deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar kísilvers í Helguvík hófust 24. nóvember sl. Tæplega 2800 íbúar höfðu fyrr á árinu skrifað undir áskorun til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ þess efnis að efnt yrði til íbúakosningar um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík. Einungis þriðjungur þess fjölda tók þátt í kosningunni.
Þessi dræma kjörsókn þykir óheppileg þar sem rafrænar kosningar eru tæki sem Reykjanesbær hyggst nota í ríkari mæli í framtíðinni til eflingar íbúalýðræði og voru nýafstaðnar kosningar liður í því lærdómsferli.