Fleiri Flugleiðavélum snúið til Glasgow
				
				Flugleiðavél sem var að koma frá Frankfurt og átti að lenda á Keflavíkurflugvelli í dag hefur verið snúið til Glasgow þar sem hún er um það bil að lenda. Flugleiðavélar frá Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Osló og London eru á leið til landsins og samkvæmt áætlun eiga þær að lenda um fjögur leitið.  Samkvæmt upplýsingum frá Flugumsjón á Keflavíkurflugvelli er óvíst hvort þessar vélar geti lent og að hugsanlega þurfi að snúa þeim til Glasgow.
				
	
				
					
						
					
					
						
					
				
				
				 								
			




 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				