Fleiri flugfarþegar
Samtals komu 189,6 þúsund farþegar til landsins um Keflavíkurflugvöll fyrstu fjóra mánuði ársins borið saman við 156,9 þúsund farþega ásama tímabili í fyrra. Er þetta aukning um 20,9%.
Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu, sem Morgunblaðið vitnar til, fóru rúmlega 143 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll í aprílmánuði samkvæmt tölum frá flugvellinum. Frá áramótum fóru rúmlega 452 þúsund farþegar um völlinn sem er 23,3% aukning sé miðað við sama tímabil í fyrra.
Ferðamálastofa segir, að fjölgunin í apríl sé veruleg eða tæp 56%. Það eigi sér skýringu í því að í apríl í fyrra gaus Eyjafjallajökull og var Keflavíkurflugvöllur þá lokaður langtímum saman. Þá falli páskaumferðin nú til í apríl en var að hluta til í mars í fyrra.