Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

FLE: Farþegafjöldi tvöfaldast á næstu 10 árum
Fimmtudagur 6. janúar 2005 kl. 14:30

FLE: Farþegafjöldi tvöfaldast á næstu 10 árum

Farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll mun tvöfaldast á næstu 10 árum. Farþegar sem fara um völlinn verða 3,1 milljón árið 2015 en þeir voru 1,6 milljón á síðasta ári. Þetta kemur fram í endurmetinni spá sem breska fyrirtækið BAA plc. hefur gert fyrir Keflavíkurflugvöll, en fyrirtækið rekur stærstu flugvelli í Bretlandi og víðar. Þetta eru 10% fleiri farþegar en í hliðstæðri spá sama fyrirtækis frá árinu 2001, en frá þessu er grein í tilkynningu frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Skipulagssérfræðingar BAA horfa til ýmissa þátta sem áhrif hafa: hagvaxtar á Íslandi, fargjalda, markaðssóknar og vinsældar Íslands sem áningarstaðar ferðafólks.
Farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um 270.000 árið 2004 eða um 20%. Farþegafjöldinn var þannig 1.640.000 á nýliðnu ári en 1.370 árið 2003.

Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., segir ljóst að menn verði að halda vel á spöðum og hraða eftir mætti framkvæmdum við að stækka og breyta skipulagi í flugstöðinni til að halda í við farþegafjölgunina. Gert sé ráð fyrir að fjárfesta á alls fjórða milljarð króna í stækkun, breytingum og betri aðbúnaði fyrir farþega og flugrekstraraðila á árunum 2004 og 2005 - án þess að álögur á farþega og flugrekendur hafi verið auknar.

Í tilkynningunni segir að sjálfur rekstur flugstöðvarinnar standi að mestu undir fjárfestingunum og lánsfé að hluta. Einu beinu tekjur flugstöðvarinnar af farþegum er svo kallað innritunargjald sem er sex dollarar fyrir hvern innritaðan farþega. Innritunargjaldið hefur lækkað íslenskum krónum síðast liðin tvö ár og hafði verið fyrir þann tíma óbreytt í dollurum í 15 ár.

Ráðist var í umfangsmiklar framkvæmdir í flugstöðinni í tveimur áföngum á árunum 2004 og 2005. Fyrri áfanga er lokið en í síðari áfanga er gert ráð fyrir framkvæmdum upp á um 1,5 milljarða króna á nýbyrjuðu ári. Eftirfarandi verkþáttum verður byrjað á þessu ári.
Norðurbyggingin stækkar til suðurs til að auka rými fríhafnarverslunar og athafnasvæði farþega við að taka á móti farangri.
Brottfarasvæðið á 2. hæð verður stækkað og endurskipulagt; rými aukið fyrir verslun, þjónustu og vopnaleit.
Nýjar skrifstofur verða innréttaðar á 3. hæð og í hluta þess flytur starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. af 2. hæð.
Landgangur verður endurbættur til að skapa farþegum notalegra umhverfi og aðstöðu til þæginda og þjónustu.
Skipulagi bílastæða verður breytt og settur upp búnaður til að nota við gjaldheimtu á skammtímastæðum.
Lokið er framkvæmdum við að stækka innritunarsal fyrir brottfarafarþega. og nú um áramótin lauk framkvæmum við stækkun á móttökusali komufarþega. Ennfremur var bílastæðum fjölgað um 500 við austurhlið flugstöðvarinnar og starfsumhverfi bílaleigufyrirtækja bætt við komuhlið, segir í tilkynningu frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024