Flagghúsið í Grindavík endurbyggt
Einungis er eitt hús ennþá uppistandandi af verslunarhúsum Einars kaupmanns í Garðhúsum í Grindavík. Flagghúsið var áður íbúðarhús í Garðhúsum, byggt 1890 og síðar pakkhús við Einarsbúð. Í dag er þetta hús upphaf skipulagðrar byggðar í Grindavík, enda öll húsnúmer frá þessu húsi talin. Flagghúsið hefur gegnt margvíslegum verkefnum meðal annars verið íbúðarhús, verbúð, samkomustaður, beituskúr, pakkhús, salthús, veiðafærageymsla og netaloft. Auk þess er þarna sögusvið nóbelsverðlaunaskáldsins og leiksvið kvikmyndarinnar “Sölku Völku”. Þarna er uppspretta myndlistar málarans Gunnlaugs Scheving enda miðja margra mynda hans. Nafngift hússins er komin af flaggstöng sem var á vesturgafli hússins. Þar voru sjómenn varaðir við ef aðgæslu var þörf á Járngerðarstaðarsundi. Þá var flaggað lóðabelgjum, einum, tveim eða þrem, eftir því hversu slæmt sundið var. Eins var verkafólk kallað til með flaggi þegar breiða átti saltfisk á þurrkreiti eða taka fisk saman.
Endurbygging
Skipt var um þak, sperrur, bæði gólfin, fóttré og burðarbita bæði neðri- og efri hæðar, einnig var skipt um klæðningu og stóran hluta burðarvirkis í gafli og hliðum hússins. Grjóthleðslur sökkuls voru endurhlaðnar. Reynt var með sérstakri bæsun að ná lit og áferð nýrra viðarhluta sem líkastan gömlu viðarhlutunum. Húsið var einangrað að utan og klætt bárujárni líkt og áður var. Þannig eru innveggir hússins sýnilegir, en þeir geyma byggingarlag hússins og sögu gengina kynslóða sem skráð er á veggi hússins. Útlit glugga og gluggaskipan verður upprunaleg. Sett verður flaggstöng á gafl hússins líkt og áður var.
Stefnt er að því að hýsa í Flagghúsi framtíðarinnar krambúð með menningar- og sögutengda starfsemi sem sæmir merkri sögu hússins, byggðarlaginu, komandi kynslóðum ómetanlegar minjar sem ekki má glata og þannig verða þannig lifandi sýningarsalur.
Lengi hefur verið ljóst að Flagghúsið er verulegt menningarverðmæti sem ekki má glata og ber að varðveita í upprunalegri mynd.
Endurbygging Flagghússins hefur kosta verulegar fjárhæðir og ekki á eins manns færi að standa straum að endurbyggingu þess. Herslumuninn vantar enn til að klára húsið og gera fært í sýningarhæft stand, segir á vef Grindavíkurbæjar.