Fjörutíu og fjórir á leikskóla og tíu Crossfit iðkendur í sóttkví
Starfsmaður á Tjarnarseli og Crossfit þjálfari greindust með Covid 19
Meðal smitaðra af Covid 19 veirunni á Suðurnesjum eru m.a. starfsmaður á leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ og þjálfari í Crossfit í Sporthúsinu á Ásbrú. Tveir aðrir einstaklingar eru smitaðir á Suðurnesjum miðað við tölur frá Embætti landlæknis 17. mars. Á þeim tímapunkti voru 94 í sóttkví á Suðurnesjum.
Árdís Jónsdóttir, leikskólastjóri Tjarnarsels staðfesti við vf.is að starfsmaður leikskólans hafi veikst síðasta föstudag og greinst með Covid-19. Í kjölfarið voru allir starfsmenn sem voru við vinnu þennan dag settir í sóttkví, alls 22 starfsmenn og 22 börn, alls 44 einstaklingar. Ræstitæknir hjá verktaka sem þreif skólann þennan dag er líka kominn í sóttkví sem og einn nemi frá Háskóla Íslands. Tjarnarsel er því lokað til 28. mars.
Árdís segir að upplýsingar og leiðbeiningar hafi verið sendar öllum foreldrum og starfsfólki.
Þjálfari hjá CrossFit í Sporthúsinu á Ásbrú greindist með veiruna eftir heimkomu frá Bandaríkjunum 7. mars. Hann fór í sóttkví sem og nemendur sem voru í tíma hjá honum við heimkomu.
Þjálfarinn kenndi sér ekki meins í CrossFit tímanum sem var fyrir hádegi 7. mars en veiktist síðar sama dag. Hann hélt sig heima og hafði samband við 1700 daginn eftir en var ekki kallaður í sýnatöku. Hann fór sjálfur í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu og fékk tilkyningu um það 15. mars að hann væri smitaður.