Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fjörutíu milljarða endurfjármögnum hjá HS Orku
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 10. júlí 2024 kl. 11:10

Fjörutíu milljarða endurfjármögnum hjá HS Orku

Áfram unnið að stækkun og endurbótum orkuversins í Svartsengi og stefnt að ljúka þeim í árslok 2025

HS Orka hefur lokið við að endurfjármagna skuldir félagsins og tryggja lánalínur fyrir áframhaldandi uppbyggingu hér á landi. Fjármögnunin nær til yfirstandandi stækkunar og endurbóta orkuversins í Svartsengi og er mikilvægt skref í átt að metnaðarfullum áformum um frekari vöxt félagsins í jarðvarma og vatnsafli, sem byggja á orkukostum í nýtingarflokki rammaáætlunar. Lánsfjárhæðin nemur að jafnvirði um 290 milljónum dollara eða um fjörutíu milljörðum íslenskra króna og er veitt af íslenskum og alþjóðlegum bönkum og sjóðum, segir í frétt frá HS Orku.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, fagnar þessum mikilvæga áfanga í rekstri félagsins: 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum afar sátt við það að hafa lokið svo umfangsmikilli endurfjármögnun á sama tíma og við höfum þurft að mæta fjölbreyttum áskorunum í rekstri vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaganum síðustu misseri. Þetta undirstrikar styrk félagsins og trú jafnt innlendra sem erlendra lánveitenda á vaxtaráform okkar til framtíðar. Það er jafnframt ánægjulegt að í hópi lánveitenda eru nýir aðilar en félagið gaf út skuldabréf á USPP (US Private Placement) markaðnum. Við erum eitt fyrsta einkarekna félagið hér á landi til að gefa út á þeim markaði og erum við stolt af því.

Endurfjármögnunin fellur undir grænan fjármögnunarramma félagsins og styður þannig við langtímamarkmið okkar í rekstri. Við höldum áfram stækkun og endurbótum orkuversins í Svartsengi og stefnum að því að ljúka framkvæmdinni í árslok 2025 en hún mun, ásamt öðrum verkefnum sem eru framundan hjá okkur, leggja lóð á vogarskálar orkuskipta á Íslandi og mæta vaxandi eftirspurn eftir raforku hér á landi.“

Um HS Orku

HS Orka byggir á traustum grunni Hitaveitu Suðurnesja sem var var stofnuð í árslok 1974 og fagnar   félagið því 50 ára starfsafmæli á árinu. Félagið hefur frá upphafi verið leiðandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku hér á landi. HS Orka er þriðji stærsti raforkuframleiðandi á Íslandi en eigendur eru til helminga Jarðvarmi, félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, og breski innviðasjóðurinn Ancala Partners. Nýsköpun hefur ávallt verið hluti af kjarna félagsins sem sést best í Auðlindagarðinum, þar sem lögð er áhersla á fullnýtingu auðlindastrauma frá jarðvarmavirkjunum. HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi ásamt tveimur vatnsaflsvirkjunum, annars vegar Brúarvirkjun í Biskupstungum og hins vegar Fjarðarárvirkjanir í gegnum dótturfélagið Íslensk Orkuvirkjun Seyðisfirði.