Fjörlegar umræður um ráðningu nýs bæjarstjóra Reykjanesbæjar
- á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar.
Ný bæjarstjórn hélt sinn fyrsta fund í Reykjanesbæ nú síðdegis. Kynntar voru kosningar í nefndir og ráð bæjarfélagsins og nokkur úlfaþytur varð í kringum stærsta mál fundarins, ráðningu bæjarstjóra.
Fráfarandi forseti bæjarstjórnar, Böðvar Jónsson sagði að það yrði án efa erfitt fyrir nýjan bæjarstjóra að starfa á milli þriggja elda, og vitnaði þar til þriggja oddvita og flokka í nýjum meirihluta bæjarstjórnar. Tillaga um að auglýsa eftir bæjarstjóra var samþykkt með atkvæðum bæjarfulltrúa nýja meirihlutans en samið hefur verið við ráðgjafafyrirtækið Hagvang sem mun sjá um faglegt ráðningaferli.
Anna Lóa Ólafsdóttir var kjörin forseti bæjarstjórnar og tók við stjórn fundarins eftir að Böðvar Jónsson, fráfarandi forseti og með lengstan feril núverandi bæjarfulltrúa í bæjarstjórn hafði sett fundinn og skýrt frá niðurstöðum kosninga. Anna Lóa stýrði fyrsta máli fundarins sem var kosning í stjórnir og ráð. Hún fékk eldskírn í embættinu þegar Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins óskaði eftir því að flokkurinn fengi áheyrnarfulltrúa í bæjarráði og vitnaði þar til nýrra starfsreglna bæjarfélagsins sem voru samþykktar á síðasta ári. Anna Lóa vildi vísa málinu til bæjarráðs en Kristinn kom þá aftur í pontu og mótmælti því og fór nokkuð mikinn í pontu. Óskaði meirihlutinn þá eftir að gert yrði fundarhlé þar sem þessi mál voru rædd. Eftir fundarsetningu á nýjan leik var ósk Kristins samþykkt en öðrum óskum um áheyrnarfulltrúa í helstu nefndir bæjarsins sem og að þeir fengju sömu kjör og aðalfulltrúar, vísað til afgreiðslu í bæjarráði.
Oddvitar meirihlutaflokkanna, Gunnar Þórarinsson frá Frjálsu afli, Guðbrandur frá Beinni leið og Friðjón Einarsson, ásamt Árna Sigfússyni og Böðvari Jónssyni frá Sjálfstæðisflokki voru kjörnir í bæjarráð en það er nokkurs konar framkvæmdaráð bæjarfélagsins og fundar vikulega. Friðjón var kjörinn formaður þess. Ellefu fulltrúa bæjarstjórn fundar tvisvar í mánuði en tekur um tveggja mánaða frí á sumrin. Þessi fundur var sá síðasti þar til eftir sumarfrí bæjarstjórnar en næsti fundur verður 7. ágúst.
Kristinn Þór Jakobsson, Framsóknarflokki í pontu var ósáttur við gang mála á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Anna Lóa Ólafsdóttir, honum á vinstri hönd var kjörin forseti bæjarstjórnar. Honum á hægri hönd er Hjörtur Zakaríasson, starfandi bæjarstjóri en bæjarritari frá árinu 1986.
Fjöldi bæjarbúa mætti á fyrsta fund nýrrar bæjarstjórnar.
Gunnar Þórarinsson og Elín Rós Bjarnadóttir úr Frjálsu afli, klofningsframboði úr Sjálfstæðisflokknum eru í meirihluta með bæjarfulltrúum Beinnar leiðar og Samfylkingarinnar.
Böðvar Jónsson setti fundinn en hann var forseti bæjarstjórnar síðustu þrjú ár.